Nólsey
Nólsey (færeyska: Nólsoy, fyrr líka Nölsoy; fornnorræna: Norsey) er eyja í miðjum Færeyjum, austur af Þórshöfn á Straumey, og skýlir höfninni í Þórshöfn vel fyrir veðrum úr austri. Hún er 10,3 km² að stærð og 9 km á lengd. Nólsey er láglendust Færeyja og þar er aðeins eitt fjall sem heitir Høgoggj. Hæsti tindur eyjarinnar heitir Eggjarklettur og er 371 metrar að hæð yfir sjávarmáli.
Á eynni er aðeins ein byggð sem einnig heitir Nólsoy og þar bjuggu 245 manns 1. janúar 2011 en voru flestir um 350 árið 1970. Byggðin er á norðanverðri eynni, þar sem hún er mjóst og lægst, raunar svo mjó að í miklum austanstormum brimar stundum þvert yfir eiðið í miðju þorpinu. Nólsey var áður sjálfstætt sveitarfélag en sameinaðist Þórshöfn árið 2004. Aðeins 20 mínútna sigling er til Þórshafnar og allmargir Nólseyingar stunda vinnu þar en fara á milli kvölds og morgna.
Syðst á eynni er vitinn Borðan, byggður 1893. Um hann skrifaði William Heinesen bókina Turninn á heimsenda. Um tíma bjuggu þrjár fjölskyldur í vitavarðarhúsinu og þar voru þá tíu börn, og var skólahald þá til skiptis þar og í Nólseyjarþorpi. Vestan á eynni er eyðibyggðin Korndalur. Þar eru rústir sem kallast Prinsessurústirnar. Sagt er að þar hafi búið skosk konungsdóttir sem hafi strokið til Færeyja með elskhuga sínum. Korndalur fór í eyði á 18. öld.
Í Nólsey er haldin árleg hátíð sem kallast Ovastefna, kennd við Ove Joensen frá Nólsey, ævintýramann sem vann sér það meðal annars til frægðar að róa frá Færeyjum til Danmerkur á færeyskum árabát árið 1986 en drukknaði í Skálafirði ári síðar. Þekktasti Nólseyingurinn er þó þjóðhetjan Nólseyjar-Páll, sem barðist gegn dönsku einokunarversluninni í upphafi 19. aldar.
Á Nólsey er stærsta stormsvölubyggð í heimi.