Notandi:Andrimann123/sandkassi
Bush v. Gore er einn þýðingamesti hæstaréttardómur 21. aldarinnar þar sem úrslit forsetakosninganna 2000 voru ákveðin. George W. Bush og Al Gore stóðu í afar tæpu kapphlaupi og Flórída varð lykilríki í að ákveða sigurvegara þar sem úrslitin í því ríki myndi tryggja öðrum hvorum frambjóðenda nægilega marga kjörmenn til þess að sigra forsetakosningarnar. Í Flórída var munurinn á atkvæðum þeirra á milli svo lítill að ákveðið var að endurtelja atkvæði sem voru metin óskýr eða ógild (e. undervotes)[1]
Kjörmannakerfið og mikilvægi Flórída
[breyta | breyta frumkóða]Í Bandaríkjunum er forsetinn kjörinn í gegnum kjörmannaráð þar sem hvert ríki fær úthlutað ákveðinn fjölda kjörmanna í samræmi við íbúafjölda. Fjöldi kjörmanna sem hvert ríki fær er jafngildur samanlögðum fjölda sæta ríkis í báðum deildum þingsins. Forsetaframbjóðandi þarf 270 kjörmenn á landsvísu til þess að hljóta kjör. Flórída var eitt af stærstu ríkjunum og í forsetakosningunum 2000 var ríkið með 25 kjörmenn. Þegar Flórída var ennþá að telja atkvæðin sín var Bush með 246 kjörmenn og Gore með 267, Flórída var því úrslitaríki[2]í kosningunum 2000.
Ágreiningur um talningu atkvæða
[breyta | breyta frumkóða]Í Flórída notuðu sýslurnar mismunandi aðferðir við túlkun á óskýrum atkvæðaseðlum og ágreiningurinn snerist því að ósamræmi við atkvæðatalningu, þar á meðal svokallaða "hanging chads", sem voru bútar af pappír sem héngu á atkvæðaseðlum eftir að kjósendur hefðu ekki gatað seðlana nægilega skýrt. Ekki voru til samræmdar reglur um hvernig átti að meðhöndla óskýra atkvæðaseðla. Atkvæðisseðill hefði því geta verið talinn gildur í einni sýslu en ógildur í annarri sýslu. Bush vildi stöðva endurtalninguna og hélt því fram að endurtalningin bryti gegn réttindum kjósenda til jafnræðis og gegn jöfnu verndarákvæði fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar[2] (e. equal protection clause).
Ferli málsins
[breyta | breyta frumkóða]Þann 8. Nóvember tilkynnti kosningaskrifstofa Flórída fylkis að Bush hefði unnið kjörmenn fylkisins með 48.8% greiddra atkvæða. Munurinn á milli Bush og Gore var einungis 1784 atkvæði. Þar sem munurinn var minni en 0.5% á atkvæðafjölda frambjóðenda var boðað til lögbundinnar endurtalningar með vélum.[3]Löggjöf í Flórída krafðist þess einnig að sýslurnar staðfesti atkvæði sín og komi þeim áleiðis til ráðherra innanríkismála Flórída innan 7 daga og margar sýslur óttuðust að þær gætu ekki framkvæmt endurtalninguna tímalega[4]. Málið fór fyrir fjölmörg réttarkerfisstig í Flórída. Sýsludómstólar urðu fyrstir til þess að leysa úr deilum um hvort handvirkar endurtalningar mættu fara fram og hvaða tímarammar giltu fyrir slíkar endurtalningar[5].
Í fyrstu fór Gore framboðið fram á handvirkar endurtalningar í fjórum sýslum: Broward, Miami-Dade, Palm Beach og Volusia. Þessar sýslur voru valdar vegna þess að þær voru annaðhvort með hátt hlutfall óskýrra atkvæða (e.undervotes) eða vélarvandamál sem gerðu talningar óáreiðanlegar[6]. Í Palm Beach og Volusia sýslum var samþykkt að framkvæma handvirka endurtalningu eftir að prufutalning sýndi villur í talningu sem gætu haft áhrif á niðurstöðurnar. Broward og Miami-Dade sýsla ákváðu upphaflega að ekki væri nauðsynlegt að endurtelja öll atkvæði[6]. Katherine Harris, ráðherra innanríkismála Flórída, lýsti því yfir að hún myndi ekki samþykkja niðurstöður sem kæmu eftir 7 daga lögbundna frestinn. Þetta olli miklum ágreiningi. Hæstiréttur Flórída tók málið fyrir og dæmdi að Harris yrði að samþykkja niðurstöður sem kæmu eftir lögbundna frestinn, ef þær höfðu áhrif á rétt kjósenda[5]. Eftir að Harris staðfesti Bush sem sigurvegara með 537 atkvæða mun yfir Gore, hóf Gore formlega áskorun á úrslitunum samkvæmt lögum Flórída. Meginrök hans voru að lögmætum atkvæðum hefði verið hafnað í Palm Beach og Miami-Dade sýslum. Hann krafðist þess að öll óskýr atkvæði (e.undervotes) í Flórída yrðu endurtalin. Hæstiréttur Flórída dæmdi honum í hag og ákvað að endurtalning væri nauðsynleg í öllum sýslum þar sem óskýr atkvæði(e. Undervotes) hefðu komið fram. Rök hæstsaréttar Flórída var byggð á þeirri meginreglu að vilji kjósenda væri ofar lögfræðilegum tæknilegum kröfum. Dómstóllinn lagði áherslu á að allar handvirkar endurtalningar skyldu hafa það að markmiði að endurspegla vilja kjósenda[5].
Ákvörðun hæstaréttar
[breyta | breyta frumkóða]Bush kærði niðurstöðu hæstaréttar Flórída fyrir hæstarétt Bandaríkjanna sem dæmdi með 5-4 meirihluta að stöðva endurtalninguna. Meirihlutinn taldi að mismunandi aðferðir og staðlar sýslanna við atkvæðatalningu bryti gegn jöfnu verndarákvæði (e. equal protection clause) fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar. Þar sem ekki væru til samræmdar reglur um hvernig ætti að meðhöndla atkvæðaseðlana, var ekki hægt að tryggja réttláta og jafna talningu í samræmi við stjórnarskránna. Hæstiréttur tók því þá ákvörðun að stöðva ætti endurtalninguna. Meirihlutinn taldi að ósamræmið í framkvæmd talningar hefði skapað ójafnan aðgang kjósenda að jafnræði í kosningum, sem er grundvallaratriði samkvæmt fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar[7] Hæstiréttur setti þann fyrirvara í niðurstöðu sína að skapa ekki fordæmi fyrir framtíðar kosningarmál. Niðurstaðan var því bundin eingöngu við þetta mál[1].
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Bush v. Gore“. Oyez.
- ↑ „Bush v. Gore and equal protection“. SCOTUSblog (bandarísk enska). Sótt 18. nóvember 2024.
- ↑ „Statutes & Constitution :View Statutes :->2000->Ch0102->Section 141 : Online Sunshine“. web.archive.org. 1. apríl 2005. Sótt 18. nóvember 2024.
- ↑ „statutes->View Statutes->2000->Ch0102->Section 112: Online Sunshine“. web.archive.org. 21. apríl 2001. Sótt 18. nóvember 2024.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 „Supreme Court of Florida Nos. SC00-2346, SC00-2348 & SC00-2349“ (PDF).
- ↑ 6,0 6,1 Richard Briffault. „Bush v. Gore as an Equal Protection Case“. 29 FLA. ST. U. L. REV. 325 (2002).
- ↑ „Bush v. Gore and equal protection“. SCOTUSblog (bandarísk enska). Sótt 18. nóvember 2024.