Norðeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lega Norðeyja á korti.

Norðeyjar eru eyjarnar sex sem liggja nyrst og austast af Færeyjum. Þetta eru Fugloy, Svínoy, Viðoy, Borðoy, Kunoy og Kalsoy. Viðey, Borðoy og Kunoy er tengdar saman með vegfyllingum yfir mjó og grunn sund og síðan við syðri og vestari eyjar Færeyja með jarðgöngum. Til Fugloyar, Svínoyar og Kalsoyar verður einungis komist með báti eða þyrlu. Á flestum eyjanna eru há og brött fjöll og sjö af tíu hæstu tindum Færeyja er þar að finna. Undirlendi er víðast lítið. Flatarmál Norðeyja er 241 km² og íbúarnir eru tæplega 6.000.

Á Borðoy er Klakksvík, næststærsti bær Færeyja, og þar búa um 80% allra íbúa Norðeyja, en flestar aðrar byggðir eru litlar og sumar mjög fámennar. Íbúum hefur farið fækkandi á minni eyjunum og í afskekktari byggðum á síðustu árum. Íbúar Norðeyja tala mállýsku sem er svolítið frábrugðin máli annarra Færeyinga. Eyjarnar eru sérstök sýsla og voru sérstakt kjördæmi til 2008.