Fara í innihald

Svamphönd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Njarðarvöttur)
Svamphönd

Vísindaleg flokkun
Veldi: Heilkjörnungar (Eukaryota)
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Svampar (Porifera)
Flokkur: Hornsvampar (Demospongiae)
Ættbálkur: Poecilosclerida
Ætt: Isodictydiae
Ættkvísl: Isodictya
Tegund:
Svamphönd (I. palmata)

Tvínefni
Isodictya palmata
Samheiti

Spongia digitata
Spongia lobata
Spongia palmata

Svamphönd[1] eða Njarðarvöttur[2] (fræðiheiti: Isodictya palmata) er tegund svampdýra af flokki hornsvampa.

Nafnið svamphönd vísar til útlits svampsins, en hann getur vaxið í lagi sem minnir á mannshönd. Á ensku nefnist tegundin mermaid's glove (ísl. hafmeyjarhanski) og á færeysku ber hann nafnið njarðarvøttur.

Orðið njarðarvöttur hefur einnig verið notað í íslensku. Orðið kemur fyrir í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu sem prentuð var árið 1540. Síðar hefur orðið verið notað í öllum íslenskum biblíuþýðingum frá 1584 til 1981. Orðið birtist einnig í biblíuþýðingunni frá 2007. Í biblíuþýðingunum hefur orðið þó aðeins verið notað almennt yfir svamp en ekki sem sértækt heiti fyrir tegundina svamphönd.[2]

Útlit og einkenni

[breyta | breyta frumkóða]

Svamphönd er skærappelsínugul á meðan hún er á lífi en litur hennar dofnar fljótt og hún er yfirleitt orðin gul þegar hana rekur að landi. Svampurinn hefur op (osculum), með upphleyptum börmum, í röðum eftir yfirborðinu.[2]

Svamphönd er mjög svipuð sumum öðrum Isodictya-tegundum og ekki ríkir einhugur meðal fræðimanna um flokkun þeirra.[2]

Útbreiðsla og búsvæði

[breyta | breyta frumkóða]

Svamphönd hefur fundist við strendur Íslands, Bretlands, Orkneyja, Hjaltlandseyja, Færeyja, Vestur- og Norður-Noreg, í Skagerak, Hvítahafi og Karahafi.[2]

Frá Íslandi eru heimildir fyrir því að svamphendur hafi verið notaðar til að þvo ungabörnum, fægja málm og sem túttur á drykkjarflöskur barna.[2]

Heimildir eru einnig frá ýmsum nytjum svamphandar í Færeyjum. Svamphönd var þar notuð áður fyrr til að skrúbba óhreinindi og í stað hálms til að kveikja upp eld. Hún var enn notuð til heimilisþrifa á Austurey í Færeyjum fyrir miðja 20. öld þar sem börn söfnuðu svamphöndum sem höfðu krækst í þorskalínur sjómanna.[2]

Í læknavísindum

[breyta | breyta frumkóða]

Svamphönd hefur verið rannsökuð með tilliti til lífvirkra efna sem tegundin kynni að framleiða. Svo virðist sem efni úr svamphönd geti haft áhrif á boðefni frumna ónæmiskerfisins[3] en niðurstöður þess efnis eru þó óljósar.[1][4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Edda Doris Þráinsdóttir (2012). Áhrif náttúruefna á boðefnaseytingu THP-1 frumna in vitro. BS ritgerð, Raunvísindadeild, Háskóli Íslands, 39 bls.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 Svanberg, I. (2007). Human usage of mermaid's glove sponge (Isodictya palmata) on the Faroes. JMBA-Journal of the Marine Biological Association of the United Kingdom, 87(6), 1773-1776.
  3. Gudmundsdottir, A. B., Freysdottir, J., & Omarsdottir, S. (2012). Immunomodulating extracts from Icelandic marine invertebrates. Planta Medica, 78(11), PI30.
  4. Omarsdottir, S., Einarsdottir, E., Finnsson, B., Olafsdottir, E., Hardardottir, I., Svavarsson, J., & Freysdottir, J. (2010). Immunomodulating effects of extracts from Icelandic marine invertebrates. Planta Medica, 76(12), P043.