Fara í innihald

Nixon-Pompidou mótmælin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nixon-Pompidou mótmælin voru haldin þann 31. maí árið 1973 af Samtökum herstöðvaandstæðinga ásamt Víetnamnefndinni og Æskulýðssambandi Íslands. Tilefnið var leiðtogafundur þeirra Richard Nixon og Georges Pompidou sem fram fór á Kjarvalsstöðum.

Aðdragandi og skipulag

[breyta | breyta frumkóða]

Forsetar Bandaríkjanna og Frakklands hittust á fundi í Reykjavík í lok maímánaðar 1973. Staðarvalið skýrðist af stirðu sambandi ríkjanna tveggja sem olli því að Pompidou neitaði að fara til Bandaríkjanna. Fyrri fundur leiðtoganna hafði því farið fram á Azoreyjum.[1]

Leiðtogafundurinn fór fram í skugga harðra landhelgisdeilna Íslendinga og Breta, sem höfðu mikil áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Viku fyrir fundinn hafði ASÍ til að mynda efnt til mótmæla á Lækjartorgi gegn framferði Breta, þar sem áætlað var að 25 þúsund manns hefðu mætt á fjölmennasta útifund Íslandssögunnar fram að því.[2] Margir kusu að setja landhelgismálið í samhengi við veru Íslands í NATO og veru bandaríska hersins, þar sem Ísland ætti í höggi við meinta bandamenn í NATO.

Samtök herstöðvaandstæðinga, Víetnamnefndin og Æskulýðssambandið ákváðu að efna til sameiginlegra mótmæla í tengslum við leiðtogafundinn. Þau sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu með helstu kröfum aðgerðanna. Þær beindust gegn veru bandaríska hersins á Íslandi, gegn yfirgangi Breta og annarra NATO-ríkja á Íslandsmiðum, gegn stuðningi Efnahagsbandalags Evrópu við málstað Breta, gegn tilraunum Frakka með kjarnorkuvopn í Kyrrahafi, gegn Víetnamstríðinu, gegn heimsvaldastefnu almennt og gegn veru Íslands í NATO.[3]

Skipulag mótmælanna var á þá leið að gengið var frá Vonarstræti, þar sem Gunnlaugur Stefánsson formaður Æskulýðssambandins flutti ávarp. Þaðan var haldið meðfram Tjörninni upp á Barónsstíg og eftir Flókagötu framhjá fundarstað leiðtoganna. Staðnæmst var við Sjómannaskólann þar sem haldinn var útifundur með fjölda ræðumanna, tónlistarflutningi og leiklistargjörningi.[4]

Mikill fjöldi fólks tók þátt í göngunni og voru kröfur tengdar landhelgismálunum mjög áberandi. Aðgerðirnar vöktu sömuleiðis athygli erlendra fjölmiðla sem fylgdust með leiðtogafundinum, en þær voru myndrænni en venja hafði verið til í íslenskum mótmælum. Var þar einkum að þakka myndlistarfólki úr SÚM hópnum sem hönnuðu vönduð og frumleg mótmælaskilti sem síðan voru máluð og smíðuð undir verkstjórn Gylfa Gíslasonar myndlistamanns. Vöktu þar sérstaka athygli gríðarstórir símar með áletruninni Watergate, en Watergate-hneykslið var þá að komast í hámæli.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „New York Times, 31. maí 1973“.
  2. „Þjóðviljinn, 25. maí 1973“.
  3. „Þjóðviljinn, 26. maí 1973“.
  4. „Þjóðviljinn, 31. maí 1973“.
  5. „Þjóðviljinn, 2. júní 1973“.