Neðansjávarfornleifafræði
Neðansjávarfornleifafræði (e. maritime archaeology) er sértækt svið innan fornleifafræði sem snýr að fornleifum undir yfirborði sjávar og öllum mannlegum leifum og gripum sem sjávarnýtingu tengjast. Rannsakendur á þessu sviði skoða minjar eins og fiskstöðvar, verbúðir, hvalveiðistöðvar, sokkin skipsflök, rústir sem hafa horfið í sjóinn, gömul hafnarstæði og margt fleira. Rannsóknir á minjum sem liggja undir hulu sjávar eru þeim augljósu erfiðleikum gædd að erfitt er að komast að þeim.
Oft liggja minjarnar á miklu dýpi og þarf því þar tilgerðan búnað til að rannsaka þær. Slíkur búnaður er kostnaðarsamur og sérþjálfaða fagaðila þarf til að vinna með hann. Kafarar eru notaðir til að fara að minjum sem liggja á grunnu dýpi en þegar þær liggja of djúpt fyrir kafara þarf að notast við djúpsjávarmyndavélar. Slíkar vélar geta verið í annaðhvort mönnuðum eða ómönnuðum rannsóknarkafbátum. Einnig er notast við hliðarhljóðsjár (e. side-scan sonar) sem notaðar eru með aðstoð skipa.
Ísland
[breyta | breyta frumkóða]Allt frá landnámi hafa Íslendingar treyst á fæðu sem hægt er að afla úr sjónum. Sjóferðir við strendur landsins hafa ávallt verið hættulegar og hefur margt skipið mætt örlögum sínum til dæmis á skerjum að nóttu til eða í veðurofsa á hafi úti. Rústir um fisk- og hvalveiðistöðvar má finna nánast hvar sem er eftir strandlengjunni.
Lítið hefur þó verið rannsakað af slíkum minjum á Íslandi og geta hugsanlegar ástæður þess verið margar. Almennt hefur verið talið að aðstæður í sjónum við Ísland séu slæmar til varðveislu minja og því sé óþarft að leita eftir þeim. Þó benda nýlegar rannsóknir til að varðveisluskilyrði séu svipaðar og við Bretlandseyjar og reglulega festast minjar í netum veiðiskipa, bæði úr járni og viði. Margt þarf að spila saman til þess að varðveisluskilyrði séu góð, súrefnissnauðar og kaldar aðstæður auk þess sem vatnsstraumar, dýpi, selta og örlífverur spila mikilvægt hlutverk.[1]
Það hafa farið fram nokkrar rannsóknir sem flokkast til neðansjávarfornleifafræði, eins og rannsóknin á minjum undir sjávarmáli við Vestfirði sem Ragnar Edvardsson stýrði (2009-2010) og rannsókn Bjarna F. Einarssonar um hina svo kölluðu „Mjaltastúlku í gígnum“ (1993). Einnig má minnast á rannsóknir Ragnars Edvardssonar sem eru í gangi þegar þetta er skrifað (mars 2013), m.a. rannsókn á póstskipinu Phønix sem fórst árið 1881 við Snæfellsnes og neðansjávarkannanir á völdum stöðum við strendur Íslands.
Enginn gagnabanki er til í dag (mars 2013) yfir staðsetningar eða fjölda skipsflaka sem liggja víðsvegar við strendur Íslands.
Mjaltastúlkan í gígnum
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1992 fundu tveir kafarar tvö skipsflök í Höfninni í Flatey í Breiðafirði. Voru það kafararnir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason. Vegna þeirrar hættu sem stafaði af hugsanlegri ásókn fjölmiðla og annarra kafara að svæðinu vegna fundarins, var ákveðið af Þjóðminjasafninu að lagst yrði í fyrstu neðansjávarfornleifafræðirannsóknina á Íslandi. Eldra flakið, sem áætlað að væri frá 17. öld var rannsakað og var það hann Bjarni F. Einarsson fór með yfirumsjón á þessari rannsókn. Með góðu samstarfi kafara og rannsóknarmanna tókst þessi rannsókn vel og staðfesti hún að flakið væri frá 17. öld og væri líklega skipið Melckmeyt (sem á íslensku þýðir Mjaltastúlka) frá Hollandi. Mikið magn af gripum fannst, aðallega keramik brot, sem í heildina vógu um 30 kg.[2]
Nýlegar rannsóknir
[breyta | breyta frumkóða]Síðan 2010 hefur Ragnar Edvardsson staðið fyrir rannsóknum sem hafa það markmið að kanna ástand og fjölda neðansjávarminja við Íslandsstrendur. Við rannsóknina er notast við bæði vettvangskannanir og ritaðar heimildir og hefur heimildarýnin leitt í ljós að meðaltali hafi tveir íslenskir fiskibátar sokkið á ári á síðari hluta 19. aldar en að auki sýndir rannsóknin að meðaltal sokkinna farmskipa er 1,12 á ári á sama tímabili. Rannsóknirnar haf leitt í ljós staðetningu sex skipsflaka sem ekki var vitað áður um og eru þessi skipsflök þannig staðsett og í þokkalegu ástandi að vel má stunda fornleifarannsóknir á þeim.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Ragnar Edvardsson (2012). „Archaeological Assessment of Selected Submerged Sites in Vestfirðir“. Archaeologia Islandica (9). Sótt 2013.[óvirkur tengill]
- ↑ Bjarni F. Einarsson (1993). „Mjaltastúlkan í gígnum, Sjávarfornleifafræðileg rannsókn í Höfninni við Flatey á Breiðafirði sumarið 1993“. Árbók Hins Íslenska fornleifafélags (90): 129–148. Sótt 2013.