Nautháfur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nautháfur


Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Animalia
Fylking: Chordata
Flokkur: Chondrichthyes
Undirflokkur: Elasmobranchii
Yfirættbálkur: Selachimorpha
Ættbálkur: Carcharhiniformes
Ætt: Carcharhinidae
Ættkvísl: Carcharhinus
Tegund:
C. leucas

Tvínefni
Carcharhinus leucas
(J. P. Müller and Henle, 1839)
Útbreiðsla nautháfs
Útbreiðsla nautháfs

Nautháfur (fræðiheiti: Carcharhinus leucas) er hákarlategund sem finnst víðsvegar um heim en hann heldur sig í hlýju og grunnu vatni, við strandlengjur hafsins, upp í ám og við árósa. Nautháfur er að eðli árásargjarn og er því mjög varasamur.

Nautháfar hafa þann eiginleika að geta verið bæði í saltvatni og fersku og hafa þeir fundist langt inn í ferskvatnsám og fljótum svo sem eins og Mississippifljóti. En þeir hafa fundist í allt að 4000 km fjarlægð frá sjó. Þrátt fyrir að hafa þann eiginleika að þrífast í ferskvatni þá tilheyra þeir ekki ættkvísl glyphishákarla (ferskvatnshákarla) heldur carcharhinus ættkvíslinni.

Vegna mikilar útbreiðslu nautháfsins þá gengur hann undir ýmsum nöfnum en algengasta heitið er Nautháfur (bull shark) og kemur nafnið frá höfuðlagi hans og árásargirni, en það þykir minna á naut.

Útlit og líkamsbygging[breyta | breyta frumkóða]

Nautháfurinn er stór og mikill, kvendýrið er að öllu jafnan stærra en karldýrið. Fullorðið kvendýr er að meðallagi 2,4 m að lengd og um 130 kg að þyngd, á meðan karldýrið er að meðaltali 2,25 m og 95 kg. Fundist hafa nautháfar í lengdinni 3,5 m og þynngsti nautháfurinn sem vigtaður hefur verið var 315 kg. Líkt og margir hákarlar er nautháfurinn grár að ofan og hvítur á kviðnum. Hann hefur stutta trjónu og hausinn er breiður miðað við lengd hans. Höfuðbygging nautháfsins aðgreinir hann dálítið frá öðrum hákörlum í carcharhinus ættkvíslinni og er því auðþekkjanlegur. Líkt og flestir hákarlar þá hefur nautháfurinn gríðarlegan bitkraft en hann nær allt að 600 kg, sem er mesti bitkraftur brjóskfiska ef reiknað er með þyngd.

Útbreiðsla og búsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Nautháfur finnst víða í heiminum í hitabeltis- og hlýtempruðum sjó og í ám og vötnum á þeim svæðum. Nautháfar halda sig grunnt og fara sjaldan neðar en á 30 m dýpi, en þó hafa þeir fundist á allt að 150 m dýpi. Í Atlantshafinu finnast þeir frá austurströnd Bandaríkjanna til suðurhluta Brasilíu og frá ströndum Marakkó til Angóla. Í Indlandshafi er útbreiðsla nautháfsins frá Suður-Afríku til Kenía, við strendur Indlands og Víetnam og svo Ástralíu.

Fæða[breyta | breyta frumkóða]

Fæða nautháfa er að mestu beinfiskar eða minni hákarlar, þar á meðal sandrifshákarlar, en önnur fæða getur verið sæskjaldbökur, fuglar, sjávarspendýr, skötur og sjávarhryggleysingjar. Eins og margir hákarlar þá er nautháfurinn tækifærissinni og étur því nánast allt sem tönn á festir. Nautháfurinn veiðir í gruggugu vatni þar sem erfiðara er að sjá hann. Veiðitækni þeirra byggist á því að bíta bráðina hratt og mörgum sinnum þar til hún getur ekki flúið. Oftast er nautháfurinn einn á veiðum, en til eru nokkur dæmi um tvo saman.

Æxlun[breyta | breyta frumkóða]

Nautháfar para sig í lok sumars og í byrjun hausts og þá oftast í vötnum með minni seltu en sjór, líkt og árósum. Meðganga kvendýrs er 12 mánuðir og getur hún fætt allt frá 4 til 10 afkvæmi. En þau fæðast sjálfsyndandi og er um 70 cm að lengd og taka 10 ár að ná kynþroska. Ungviði nautháfa þola illa seltu og því sækjast nautháfarnir í ferskara vatn til að eignast afkvæmi og tryggja betri lífsmöguleika, bæði vegna minna saltmagns og í fersku vatni eru færri rándýr.

Hætta gagnvart mönnum[breyta | breyta frumkóða]

Vegna þeirrar staðreyndar að nautháfurinn heldur sig í grunnu vatni er líklegt að menn rekist á hann. Ásamt hvítháf, tígrisháf og hvítugga er nautháfur ein af fjórum hákarlategundum sem líklegust eru til að ráðast á menn. Nautháfurinn þykir jafnvel líklegri til árása á menn vegna þess að hinnar þrjár tegundirnar eru á mun dýpri svæðum á meðan nautháfurinn heldur sig við grunn svæði og jafnvel úti fyrir þéttbýlum svæðum.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Bull shark“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. september 2014.
  • „Eru nautháfar hættulegir mönnum?.php?id“. Vísindavefurinn.
  1. Simpfendorfer C. & Burgess, G.H. (2005). „Carcharhinus leucas“. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2005. Sótt 18. ágúst 2011.