Fara í innihald

Mauritshuis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mauritshuis stendur við hliðina á Binnenhof

Mauritshuis er lítill kastali í borginni Haag í Hollandi, nefndur eftir Márits herforingja í sjálfstæðisstríði Hollendinga. Húsið er málverkasafn í dag en þar eru málverk til sýnis eftir Jan Vermeer, Rembrandt, Rubens, Frans Hals, Jan Brueghel og ýmsa fleiri.

Saga hússins

[breyta | breyta frumkóða]
Stúlka með perlueyrnahringi eftir Jan Vermeer

Það var Márits af Nassau sem lét reisa húsið 1633 við hliðina á kastalann Binnenhof og var það ætlað sem heimili hans. Á meðan húsið var í byggingu, þjónaði Máritz sem landstjóri hollensku nýlendnanna í Suður-Ameríku. Þegar hann kom heim 1644 var húsið fullbúið. Kastalinn er í hollenskum-klassískum stíl, með snert af ítalskri endurreisn. Innviðið eyðilagðist í eldi 1704 og var þá allt smíðað upp á nýtt. 1820 keypti hollenska ríkið kastalann sem safnahús fyrir konunglega málverkasafnið. Húsið er enn málverkasafn í dag, eitt hið merkasta í Hollandi. Kastalinn er friðaður.

Elstu málverkin voru áður í eigu Vilhjálms V landstjóra (1748-1806). Sonur hans, Vilhjálmur I konungur Hollands, gaf hollenska ríkinu safnið allt árið 1816. Síðan þá hafa mörg fleiri málverk bæst við. 1822 voru 200 málverk í safninu, en í dag eru þau um 800. Konungsfjölskyldan hafði reynt að fá verk eftir hollenska og belgíska meistara frá gullna tímabilinu (17. og 18. öld). Auk þess hafa ríkir einstaklingar fært safninu ýmis málverk að gjöf. Af gömlu meisturunum má nefna Rembrandt van Rijn, en í Mauritshuis eru tíu af málverkum hans til sýnis. Þar með er Mauritshuis eitt mikilvægasta safn hins fræga málara.

Þekktir málarar og fjöldi málverka þeirra í Mauritshuis:

Málari Fjöldi málverka í Mauritshuis Ath.
Rembrandt van Rijn 10 Eitt mesta safn málverka hans
Jan Vermeer 3
Frans Hals 5
Jan Brueghel 5 Sum máluð saman með öðrum málara
Jan Steen 15
Peter Paul Rubens 6
Jacob van Ruisdael 6
Ferdinand Bol 2
Lukas Cranach eldri 1 Þýskur meistari
Hans Holbein yngri 2 Þýskur meistari

Öll hafa málverkin verið hreinsuð síðustu áratugi og eru þau í góðu ástandi. Gestir í Mauritshuis eru um 250 þús árlega.

Fyrirmynd greinarinnar var „Mauritshuis“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. september 2011.