Borðsalt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Matarsalt)
Jump to navigation Jump to search
Borðsalt
Saltkristall
Vinnsla sjávarsalts í Tælandii

Borðsalt eða matarsalt er unnið salt og er notað til að bragðbæta mat og drykki. Aðalefni þess (97-99%) er natríumklóríð (efnatákn NaCl), en það inniheldur oftast snefil af öðrum efnum, t.d. kalíumjoðíði (KI) og efnum sem hindra myndun kekkja. Bergsalt (steinsalt) er unnið úr saltnámum víða í Evrópu, en sjávarsalt er unnið úr sjó.

Joði er oft bætt í borðsalt en joðmagn í salti er misjafnt eftir markaðssvæðum og er tekið mið af því hve almennur joðskortur er á þeim svæðum þar sem selja á saltið. Sums staðar er flúor og járni einnig bætt í borðsalt.

Borðsalt er ýmist talið fínt eða gróft, eftir stærð saltkristalla. Flögusalt er gróft salt sem myndar flata, óreglulega kristalla. Sem dæmi um það má nefna Maldon-salt.

Iðnaðarsalt[breyta | breyta frumkóða]

Aðeins um 17% af öllu því salti sem unnið er í heiminum er borðsalt, afgangurinn er iðnaðarsalt sem fer til iðnaðarframleiðslu af ýmsu tagi eða er notað við hálkueyðingu. Í Evrópu er hlutfallið enn lægra og aðeins 3% af evrópskri saltframleiðslu er borðsalt. Gerðar eru mun strangari kröfur til hreinleika og efnainnihalds borðsalts en iðnaðarsalts og það er því mun dýrara.

Saltmálið[breyta | breyta frumkóða]

Í janúar 2012 sögðu íslenskir fjölmiðlar frá því að salt sem Ölgerðin og áður Danól höfðu flutt inn, að minnsta kosti frá 1998, og selt til fjölda fyrirtækja í matvælaiðnaði var ekki borðsalt, heldur iðnaðarsalt, sem ekki þarf að standast sömu kröfur og salt sem ætlað er til manneldis. Forsvarsmenn Ölgerðarinnar kváðust ekki hafa vitað að saltið væri ekki ætlað til neyslu.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Iðnaðarsalt í matvæli. Á vef RÚV, skoðað 15. janúar 2012.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist