Fara í innihald

Marta krónprinsessa Noregs

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Bernadotte ætt Krónprinsessa Norðmanna
Bernadotte ætt
Marta krónprinsessa Noregs
Marta krónprinsessa
Ríkisár Dó áður en Ólafur varð konungur
SkírnarnafnMärtha Sofia Lovisa Dagmar Thyra
Fædd28. mars 1901(1901-03-28)
 Arvfurstens höll í Stokkhólmi
Dáin5. apríl 1954 (53 ára)
 Ríkisspítalanum í Osló
GröfAkershus höll í Osló
Konungsfjölskyldan
Faðir Karl prins, hertogi af Vestur-Gautlandi
Móðir Ingiborg Danaprinsessa
EiginmaðurÓlafur 5. Noregskonungur
Börn

Marta krónprinsessa Noregs (Märtha Sofia Lovisa Dagmar Thyra) (28. mars 1901 - 5. april 1954) var sænsk prinsessa. Marta varð síðar krónprinsessa Noregs, og eiginkona Ólafs krónprins Noregs sem síðar varð Ólafur 5. Noregskonungur, frá 1929 til dauðadags árið 1954. Marta varð ekki drottning Noregs því hún lést áður en maður hennar varð konungur.

Æska[breyta | breyta frumkóða]

Marta fæddist í Arvfurstens höll í Stokkhólmi þann 28. mars 1901 en foreldrar hennar voru Karl prins, hertogi af Vestur-Gautlandi og Ingiborg Danaprinsessa. Faðir Mörtu var yngri bróðir Gústafs 5. Svíakonungs og móðir hennar var yngri systir þeirra Kristjáns 10. Danakonungs og Hákons 7. Noregskonungs.

Marta hlaut heimakennslu frá einkakennurum en lauk einnig námskeiðum í ummönnun barna og skyndihjálp.

Krónprinsessa[breyta | breyta frumkóða]

Á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1928 trúlofaðist sænska prinsessan Marta frænda sínum Ólafi krónprins og ríkisarfa Noregs. Fréttum af trúlofuninni var almennt tekið vel og þóttu þær til marks um að gróið væri um heilt í kjölfar sambandsslita Noregs og Svíþjóðar árið 1905. Eftir árslanga trúlofun, gengu Marta og Ólafur í hjónaband í Dómkirkjunni í Ósló þann 21. mars 1929 og var það fyrsta konunglega brúðkaupið í Noregi í 340 ár. Hjónin eignuðust þrjú börn Ragnhildi (1930–2012), Astrid (f. 1932) og Harald (f. 1937) sem er núverandi konungur í Noregi.

Marta krónprinsessa varð fljótt vinsæl og vel liðin meðlimur konungsfjölskyldunnar. Hún tók að sér ýmis opinber verkefni og hélt t.d. fjöldan allan af ræðum sem þótti óvenjulegt fyrir konu í konungsfjölskyldum á þeim tíma.

Krónprinshjónin bjuggu í sveitasetri á Skaugum en setrið fengu í brúðkaupsgjöf frá Fritz Wedel Jarlsberg. Húsið eyðilagðist í eldsvoða árið 1930 og tók krónprinsessan virkan þátt í hönnun og skipulagi nýrrar byggingar.

Marta varð fyrir miklu áfalli árið 1935 þegar systir hennar Ástríður Belgíudrottning lést í bílslysi. Systurnar voru afar nánar og síðar sagði Ólafur að það hefði tekið konu sína meira en tíu ár að sætta sig við dauða systur sinnar og hann taldi að hún hefði í raun aldrei orðið söm.

Árið 1939, skömmu áður en seinni heimsstyrjöldin braust út, ferðuðust krónprinshjónin Marta og Ólafur til Bandaríkjanna. Krónprinshjónunum og forsetahjónum Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt og Eleanor Roosevelt varð vel til vina. Í ferðinni heimsóttu Marta og Ólafur m.a. efri miðvesturríki Bandaríkanna þar sem margir Norðmenn höfðu sest að.

Seinni heimstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Þýskaland hertók Noreg í apríl árið 1940 flúðu krónprinsessan og börn hennar fyrst til heimalands hennar Svíþjóðar þar sem henni var ekki vel tekið. Margir Svíar töldu að vera hennar í landinu setti hlutleysi Svíþjóðar í hættu. Sumir bentu t.d. á að hún ætti að samþykkja tillögu Þjóðverja um að skila þriggja ára syni sínum Haraldi prins til Noregs svo Þjóðverjar gætu útnefnt hann konung. Marta tók slíkt aldrei í mál en í kjölfarið bauð Roosevelt forseti Bandaríkjanna Mörtu og börnum hennar að dveljast í Bandaríkjunum. Þangað sigldu þau með bandaríska hernum frá finnsku hafnarborginni Petsamo. Í upphafi Bandaríkjadvalarinnar gistu Marta og börnin í Hvíta húsinu. Ólafur krónprins hafði skömmu áður farið til Bretlands ásamt föður sínum og starfaði þar með norsku útlagastjórninni. Krónprinsparið var því aðskilið í nokkur ár meðan á stríðinu stóð.

Vinátta Mörtu krónprinsessu og Roosevelt þróaðist enn frekar á stíðsárunum. Árið 1942 afhentu Bandaríkin herliði norsku útlagastjórnarinnar herskip að gjöf og veitti Marta skipinu viðtöku fyrir hönd Noregs. Vinna hennar við að aðstoða Rauða krossinn í Bandaríkjunum og einnig barátta hennar fyrir norskum hagsmunum hafði mikil áhrif á Bandaríkjaforsetann. Vangaveltur voru uppi um hvers eðlis samband forsetans og krónprinssunar væri. Rithöfundurinn Gore Vidal fullyrti síðar að Marta hefði verið „síðasta ást“ Roosevelts. Jafnframt sagði James, sonur Roosevelts, engan vafa leika á því að Marta hafi verið mikilvæg persóna í lífi föður hans á stríðstímanum og einnig taldi hann möguleika á því raunverulegt rómantískt samband hafi verið á milli forsetans og krónprinsessunnar.

Marta dvaldist í Bandaríkjunum stærstan hluta stríðstímans og vann þar ötullega að norskum hagsmunum, bæði opinberlega og einnig gagnvart stjórnvöldum þar í landi.

Eftirstríðsárin[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Marta sneri aftur til Noregs við stríðslok árið 1945 hlaut hún góðar móttökur landa sinna og var sögð vera „móðir þjóðarinnar“. Hún lagði áherslu á að styðja norsku þjóðina að stríði loknu og vinna að velsæld þjóðarinnar.

Opinbert hlutverk krónprinshjónanna jókst eftir stríð enda hafði heilsu Hákonar konungs hrakað töluvert. Meðal þeirra verkefna sem Mörtu krónprinsessu voru falin, var að flytja nýársávörp árin 1946 og 1950.

Marta lést úr krabbameini á Þjóðarsjúkrahúsinu í Ósló, aðeins 53 ára gömul, þann 5. apríl 1954 eftir að hafa átt við vanheilsu að stríða um skeið. Tengdafaðir hennar, Hákon Noregskonungur lést þremur árum síðar og tók Ólafur þá við stöðu konungs. Ólafur kvæntist ekki aftur eftir andlát Mörtu.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Princess Märtha of Sweden“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 26. janúar 2021.