Fara í innihald

Malcolm X

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Malcolm X
Malcolm X þann 26. mars 1964.
Fæddur19. maí 1925
Dáinn21. febrúar 1965 (39 ára)
Manhattan, New York, Bandaríkjunum
DánarorsökMyrtur
StörfAðgerðasinni
Þekktur fyrirForystu sína í mannréttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna á miðri 20. öld.
TrúÍslam
MakiBetty Shabazz (g. 1958)
BörnAttallah Shabazz
Qubilah Shabazz
Ilyasah Shabazz
Gamilah Lumumba Shabazz
Malikah Shabazz
Malaak Shabazz
ForeldrarEarl Little & Louise Helen Norton Little
Undirskrift

Malcolm X (19. maí 192521. febrúar 1965) fæddur Malcolm Little, einnig þekktur sem Detroit Red, El-Hajj Malik El-Shabazz, og Omowale, var einn af leiðtogum mannréttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna á sjötta og sjöunda áratugnum. Hann var til langs tíma talsmaður Nation of Islam (NOI). Hann stofnaði Muslim Mosque, Inc. og Organization of Afro-American Unity.

Uppruni og fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Malcolm fæddist í Omaha, Nebraska 19. maí 1925. Foreldrar hans hétu Earl og Louise Little. Faðir hans var baptistaprestur sem prédikaði um aðskilnað svartra og hvítra. Hann prédikaði undir áhrifum Marcusar Garveys sem var einn helsti hvatamaður þess að svart fólk búsett í Bandaríkjunum færi aftur til Afríku og byggi til nýtt samfélag þar. Earl aðhylltist þessa kenningu en hún kallaðist „Back to Africa“. Talið er að faðir Malcolms hafi verið drepinn af Ku Klux Klan-meðlimum sem kölluðu sig „Black Legion“. Móðir Malcolms var úrskurðuð geðveik árið 1939 og send á geðveikrahæli þar sem hún dvaldi næstu 26 árin þar til börn hennar náðu henni út. Malcolm átti sjö systkin, tvær systur, Hilda og Yvonne, og fimm bræður, þá Wilfred, Philbert, Reginald, Wesley og Robert. Enn fremur átti hann þrjú hálfsystkin, Ellu, Mary og Earl. Öll voru þau tekin og sett hvert á sitt fósturheimili þegar móðir þeirra var send á hælið. „Á unga aldri var Malcolm mikill námsmaður. Hann útskrifaðist úr framhaldsskóla með hæstu einkunnir í bekknum sínum og hafði mikinn hug á því að stunda lögfræði. En þegar eftirlætiskennari hans tilkynnti honum að lögfræði væri „ekki starf fyrir niggara“ missti hann löngun til náms og hætti.

Glæpamaðurinn og fangelsið

[breyta | breyta frumkóða]

Fimmtán ára að aldri kemur Malcolm til Boston til að dvelja hjá systur sinni. Hann stundaði vafasama iðju með félaga sínum Shorty og varð þekktur undir nafninu Red vegna rauða hársins sem hann hafði líklega frá afa sínum, hvítum manni sem hafði nauðgað ömmu hans. Malcolm varð eiturlyfjasali, fíkill, innbrotsþjófur, hórumangari og stóð í ólöglegu veðmálabraski. Árið 1946 voru þeir Shorty handteknir af lögreglu. Þá var Malcolm aðeins tvítugur. Dómur Malcolms hljóðaði upp á tíu ár en hann afplánaði einungis sjö vegna góðrar hegðunar. Í fangelsinu festist enn eitt viðurnefnið við hann, Satan, sem mun hafa komið til af því hve hann blótaði mikið, sérstaklega Guði og Biblíunni.

Í fangelsinu nýtti Malcolm tímann til að læra og bæta menntun sína. Bróðir hans, Reginald, sendi honum iðulega bréf í fangelsið og hóf að kynna honum íslamska trú. Reginald var þá meðlimur í íslamska félaginu „Nation of Islam“ (hér eftir N.O.I.). Reginald fræddi hann um Íslam og hvað fælist í því að vera múslimi. Malcolm lærði að fólkið sem kom frá Afríku hefði verið múslimar áður en það var sent til Bandaríkjanna. „N.O.I. lýstu því yfir að þeir væru svart samfélag sem styddi aðskilnað svartra og hvíta“. Undir áhrifum leiðtoga N.O.I., Elijahs Muhammeds, lærði Malcolm um múslima og íslam. Malcolm gerðist meðlimur N.O.I. í fangelsi og prédikaði yfir samföngum sínum. Fyrstu samskipti þeirra Malcolms og Elijahs voru í gegnum bréfaskriftir. Hinn 7. ágúst 1952 var Malcolm sleppt úr fanglesi. Þá var hann orðinn nýr maður sem hafði snúið bakinu við gömlum glæpaferli og orðinn bókstafstrúaður múslimi.

Dauði Malcolms

[breyta | breyta frumkóða]

Frá því að Malcolm sneri aftur til Bandaríkjanna átti hann stöðugt á hættu að verða drepinn. Stöðugar morðhótanir dundu á Malcolm og fjölskyldu hans. Malcolm hætti að ferðast einn, skildi ekki fjölskyldu sína eftir nokkurs staðar og hafði alltaf lífverði með sér. Malcolm virðist ekki hafa ætlað að láta bugast og gerði hvað hann gat til að koma boðskap sínum til skila, hinum nýja boðskap um að svartir og hvítir ættu að búa saman í sátt og samlyndi. Margar árásir voru gerðar á hann og fjölskyldu hans. Til dæmis var kveikt í húsinu hans að næturlagi, bílsprengju var ætlað að granda honum og margt fleira. Þessar hótanir og morðtilraunir voru allar framkvæmdar af meðlimum N.O.I.

21. febrúar 1965 var Malcolm drepinn. Hann var að halda ræðu á Manhattan þegar þrír menn ruddust inn í salinn og skutu Malcolm til bana. Hann var skotinn fimmtán skotum. Mennirnir þrír, Talmadge Hayer, Norman 3X butler og Thomas 15X voru allir meðlimir í N.O.I. Ári seinna voru þeir allir dæmdir fyrir morð að yfirlögðu ráði.

27. febrúar 1965 var Malcolm jarðsettur í Ferncliff-kirkjugarðinum í New York. Fimmtán hundruð manns mættu að jarðarförinni. Þegar átti að grafa líkið tóku vinir Malcolms skóflurnar og grófu hann sjálfir.