Luna fatale

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Luna fatale (íslenska: Svalur og sveindómurinn) er 45. Svals og Vals-bókin og sú þrettánda eftir þá Tome og Janry. Hún kom út á frummálinu árið 1995 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst í New York. Mafíuforinginn Don Vito Cortizone er kominn á kreik enn á ný og á í harðri baráttu við kínversku mafíuna. Liðsmenn hans týna hratt tölunni, því þeir virðast hver af öðrum vera sturlaðir af ást og því auðveldlega leiddir í gildru. Mafíósarnir ákveða að fá Sval sér til aðstoðar, enda hafi hann aldrei verið við konu kenndur og virðist áhugalaus um ástarbrall.

Dóttir Don Cortizone, hin tvítuga og gullfallega Luna er send út af örkinni og rænir þeim Sval og Val. Mafíuforinginn skipar Sval að komast að leyndarmálinu á bak við ástargaldur Kínverjanna og setur tímasprengju um háls Vals til að leggja áherslu á kröfur sínar.

Við tekur eltingaleikur um undirheima Kínahverfisins, þar sem Svalur og Luna taka saman höndum. Þau uppgötva að skýringin felst í því að átt hefur verið við sólgleraugu manna Don Cortizone með þeim afleiðingum að þeir verða bálskotnir í forystukonu Kínverjanna. Sú er í hefndarhug, þar sem hún ber andlitslýti frá fornu fari sem Don Cortizone ber ábyrgð á.

Svalur, Valur og Luna sleppa undan Kínverjunum í loftbelg ásamt Don Cortizone. Hann er hins vegar handtekinn af lögreglunni og á yfir höfði sér langa fangelsisvist. Í lokin er þó gefið í skyn að Luna nái að frelsa hann úr prísundinni.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Bókin hefur sterkari kynferðislega undirtóna en aðrar sögur í ritröðinni. Þannig segir í upphafi sögunnar frá opnun ljósmyndasýningar Vals, þar sem allar myndirnar sýna líkama naktrar fyrirsætu. Þetta er í stíl við bækur þeirra Tome og Janry um ævintýri Litla Svals, þar sem söguhetjan gerir mikið af því að hugsa um hitt kynið en heimur flestra Svals og Vals-bókanna er að mestu án kvenpersóna.
  • Á dramatísku augnabliki í miðjum flótta undan Kínverjunum kyssast Svalur og Luna. Það er fyrsti koss Svals í bókaflokknum, en ekki sá síðasti.
  • Munurinn á innræti Svals og Lunu kemur fram í miðjum eltingaleik þar sem Luna hikar ekki við að skjóta einn óvinanna með köldu blóði, meðan Svalur lætur næga að stökkva þeim á flótta.