Ludvig Rudolf Stefánsson Kemp
Ludvig Rudolf Stefánsson Kemp, oftast nefndur Ludvig Kemp, f. 8.8.1889, d. 30.7. 1971, var íslenskur rithöfundur, bóndi og verkstjóri.
Ætt, uppruni og nám
[breyta | breyta frumkóða]Ludvig Kemp fæddist í Víkurgerði í Fáskrúðsfirði, sonur hjónanna Stefáns Árnasonar, sem oftast var kenndur við Ástmarsstaði í Breiðdal, og Helgu Ludvigsdóttur Kemp, en hún var af þýskum ættum. Hann var snemma tekinn í fóstur af Júlíusi Ísleifssyni og konu hans Guðfinnu Eyjólfsdóttur, sem bjuggu að Hlíð í Breiðdal. Ludvig Kemp varð gagnfræðingur frá Flensborgarskóla árið 1909, og útskrifaðist árið 1911 frá Verslunarskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Christian Popp, kaupmanni á Sauðárkróki, þegar að námi loknu. Kona Ludvigs Kemp var Elísabet Stefánsdóttir, g. 30. maí 1912, dóttir Stefáns bónda og pósts í Jórvík í Breiðdal.
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Sama ár og þau giftust hófu Elísabet og Ludvig Kemp búskap að Hafragili í Laxárdal í Skefilsstaðahreppi. Þau keyptu jörðina Illugastaði í sömu sveit árið 1915. Fyrir jarðrækt og húsabætur þar fengu þau hjónin verðlaun úr verðlaunasjóði Kristjáns konungs IX. Á Illugastöðum bjuggu þau í 30 ár. Allan þann tíma vann Ludvig Kemp meira og minna utan heimilisins, en mest á sumrin. Hann var verkstjóri við vegagerð, brúasmíði, hafnargerð og húsbyggingar. Meðal verkefna sem hann stjórnaði voru brúarsmíði yfir vesturós Héraðsvatna og vegagerð um Siglufjarðarskarð. Árið 1938 fékk hann meistararéttindi sem húsasmiður og múrari. Árið 1946 fluttu hjónin til Skagastrandar, eftir að hafa brugðið búí á Illugastöðum. Þar starfaði Ludvig Kemp fyrir Sjúkrasamlag Höfðahrepps, sem hann veitti forstöðu allt til ársins 1969, en þá fluttu þau hjón til Reykjavíkur. Þrátt fyrr mikið annríki við ýmis störf gaf Ludvig Kemp sér tíma til að sinna áhugamáli sínu, sem var söfnun og varðveisla sagna og fróðleiks frá fyrri tíð. Sumt af því gaf hann út í tímaritsgreinum og blöðum, en annað kom út á bókarformi. Mikið safn af handritum hans var ánafnað Sögufélagi Skagfirðinga, og er varðveitt í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki. Hagyrðingur var Ludvig Kemp góður, og eru ýmsar vísur hans til á prenti, mest í efni sem er tengt skagfirskum fræðum.
Ritstörf
[breyta | breyta frumkóða]Það verk sem Ludvig Kemp er best þekktur fyrir er bókin Sagnir um slysfarir í Skefilstaðahreppi á sjó og landi, frá 1800 - 1950. Bókin kom út 1963 en var endurprentuð nokkrum árum seinna. Bókin segir frá slysförum 70 einstaklinga sem allir dóu á þessu árabili í Skefilsstaðahreppi, eða rak af sjó í landi jarða í hreppnum. Höfundur varði áratugum til að safna efni til bókarinnar, og hafði um það samstarf og samband við allmarga aðila. Má þar nefna Jón Sigurðsson, alþingismann á Reynistað, Magnús Björnsson, fræðimann og hreppstjóra á Syðra-Hóli á Skagaströnd, Jón Jóhannesson, fræðimann á Siglufirði, Stein Steinsson, hreppstjóra á Hrauni á Skaga, Sigurð Kárason í Hegranesi, Kolbein Kristinsson á Skriðulandi, séra Benjamín Kristjánsson á Laugalandi, Braga Sveinsson, ættfræðing á Flögu í Hörgárdal og Stefán Jónsson, fræðimann og ættfræðing á Höskuldsstöðum. Brynleifur Tobíasson, yfirkennari á Akureyri, las handrit og aðstoðaði við ættfærslur o.fl. Er bók þessi mikil heimild um ættfræði og aðstæður á löngu liðnum tíma, og vitnað í hana af ýmsum sem um skagfirska sögu hafa skrifað. Bókin er 16 kaflar, 184 bls.[1][2]
Önnur rit eftir Ludvig Kemp
[breyta | breyta frumkóða]Boðskort í sextugsafmæli Lárusar Jónssonar læknis þann 23. mars 1956. (Ljóð). Húnavaka 2011, 51: bls. 72-74.
Frekari skýringar við skattaskýrslu "Kristins bróður" 1956. Húnavaka ; 1996; 36: bls. 66-69.[3]
Annað tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Gunnar Árnason: Bækur. Kirkjuritið ; 1964; 30 (2): bls. 93-94. Ritdómur um bókina Sagnir um slysfarir í Skefilstaðahreppiá sjó og landi, frá 1800 - 1950.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Ludvig Rudolf Kemp - minning“.
- ↑ Ludvig Rudolf Kemp. Sagnir um slysfarir í Skefilsstaðahreppi á sjó og landi, frá 1800 - 1950. Prentsmiðjan Leiftur H.F. Reykjavík 1963.
- ↑ „Ludvig R. Kemp“.
- ↑ „Gunnar Árnason 1901-1985 (prestur) höfundur“.