Fara í innihald

Louis Zöllner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Louis Zöllner (f. Lauritz Ludvig Zöllner 18. apríl 1854, d. 20. janúar 1945) var danskur stórkaupmaður sem um tveggja áratuga skeið var umboðsmaður flestra kaupfélaga á Íslandi og athafnasamur í útflutningi og sölu á íslensku sauðfé. Hann var lengi búsettur í Newcastle í Bretlandi. Zöllner útvegaði fjármagn í Vídalínsútgerð sem var rekin af Jóni Vídalín og gerði út sex togara og hefur það verið stórfelldasti atvinnurekstur á Íslandi á meðan það stóð. Uppruni fjármagns Zöllners var „lítill enskur landsbyggðarbanki.”

Umsvif á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Zöllner gerðist umboðsmaður Kaupfélags Þingeyinga árið 1886. Á þeim tíma var það eina kaupfélagið sem hafði fastan grundvöll en þrjú önnur voru stofnuð sama ár. Hann tók fljótlega upp samstarf við Jón Vídalín. Zöllner var milligöngumaður um ýmsa verslun og þáði 2,5% umboðslaun fyrir. Hann var lánardrottinn og lagði út fyrir kaupum og sá um flutning til landsins. Til að mynda lánaði hann 18 þúsund krónur til verslunar Þórðar og Baldvins Gunnarssona, Höfðabræðra við Grenivík sem var gífurleg skuld. En þeir bræðurnir fjárfestu í sjávarútvegi og verslun sem skilaði hagnaði og náðu að greiða niður lánið. Annars staðar hækkuðu skuldir, svo sem hjá Árna Sveinssyni á Vestfjörðum sem safnaði skuldum upp á 70 þúsund með þeim afleiðingum að Zöllner yfirtók eignir hans: þrjú þilskip, vörubirgðir og skuldir viðskiptavina og seldi Edinborgarversluninni.

Árið 1894 tók Zöllner upp viðskipti við Thor Jensen og lánaði honum talsvert, meðal annars til kaupa á tveimur þilskipum. Fjórum árum síðar lánar Zöllner Thor meira fé, jafnvel þótt Thor hafi þá skuldað honum á bilinu 13–14 þúsund krónur. Ýmis óhöpp urðu þó til þess að Zöllner gekk að skuldum sínum og Thor varð gjaldþrota. Fjárfestingar Zöllners í íslenskum fyrirtækjum reyndust ekki gjöfular en aðra sögu er að segja um útflutningsverslun hans.

Zöllner var allt frá 1886 eini kaupmaðurinn sem að nokkru ráði tók sauði í umboðssölu, en fram að 1896 kom oft til þess að sauðir voru keyptir beint af bændum. Árið 1896 settu Bretar þær takmarkanir á innflutningi sauðfjár að aðeins mætti flytja það til landsins ef það væri leitt beint til slátrunar af skipinu. Þessi takmörkun varð til þess að féið nýttist verr og lækkaði verðið og eftirsprun dróst saman. Í samvinnu við Jón Vídalín hóf hann einnig að versla með hross. Það gekk þó illa eftir að eftirspurn jókst frá Danmörku eftir hestum, því þar hafði Zöllner ekki betri sambönd en margir aðrir og hætti hann því um 1906.

Um aldamótin 1900 tóku Bretar að kaupa saltfisk, sér í lagi áðurnefnd Edinborgarverslun og A. & D. Birrell í Liverpool sem réðu Zöllner sem umboðsmann sinn 1901 og verslaði hann með saltfisk að minnsta kosti til 1910. Annar Breti att samkeppni við Zöllner, Pike Ward að nafni.[1]

Einhver mestu umsvif Zöllners voru fólgin í skipaútgerð en hann var með gufuskipið Fridtjof á sínum snærum sem sigldi með ströndum Íslands með smærri sendingar. Einnig samdi hann við breska timburkaupmenn sem sendu stóra báta til Arkhangelsk í Rússlandi um viðkomu með vörur á Íslandi. Zöllner seldi einnig kol og steinolíu en beið lægri hlut fyrir samkeppni DDPA, danska steinolíuhlutafélagsins, sem bauð honum, að eigin sögn, 375 pund á ári í fimm ár fyrir að hætta olíusölu til Íslands árið 1908.

Loks kom Zöllner að stofnun Íslandsbanka 1904, sem keppa átti við Landsbankann. Þar átti Björn Kristjánsson kaupmaður að komast í sæti bankastjóra en vegna þrýstings frá Zöllner var fallið frá því. Zöllner lagði fram einn tíunda hlutafjárins eða 200 þúsund krónur. Eftir þetta beitti Zöllner sér fyrir því að íslensk kaupfélög og kaupmenn færðu viðskipti sín til Íslandsbanka.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Shipbroker, seafarer, adventurer and trader. Pike Ward Ltd based in Teignmouth for over 130 years“.
  • Helgi Skúli Kjartansson. „Louis Zöllner: erlendur fjárfestandi á Íslandi 1886-1912” í Landshagir : þættir úr íslenskri atvinnusögu, gefnir út í tilefni af 100 ára afmæli Landsbanka Íslands (ritstjóri Heimir Þorleifsson). Reykjavík: Landsbanki Íslands, 1986:9-31