Fara í innihald

Loðmundarskriður

Hnit: 65°22′41″N 13°50′57″V / 65.37806°N 13.84917°V / 65.37806; -13.84917
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

65°22′41″N 13°50′57″V / 65.37806°N 13.84917°V / 65.37806; -13.84917 Loðmundarskriður, öðru nafni Stakkahlíðarhraun í Loðmundarfirði er eitt af stærstu berghlaupum á Íslandi. Loðmundarskriður eiga upptök sín í víðri brotskál utan í fjöllunum Skúmhetti og Bungufelli. Þar hefur mikil bergfylla losnað og hrunið niður hlíðarnar og síðan skriðið á miklum hraða niður á láglendið. Sá hluti urðarinnar sem lengst komst hefur farið þvert yfir dalinn fyrir botni fjarðarins, fyrir utan bæinn Stakkahlíð. Berghlaupsurðin stíflaði bæði Hrauná, sem kemur úr Hraundal, og Fjarðará. Innan urðarinnar mynduðust stöðuvötn sem nú eru að mestu horfin.

Hlauplengd Loðmundarskriðna er 5,6 km. Fallhæðin er úr 700 m og að sjávarmáli. Flatarmál hlaupsins er um 8,0 km².

Í skriðunum finnst perlusteinn sem er glerkennt afbrigði af líparíti. Vatn sem bundið er í berginu veldur því að það þenst út við hitun og myndar glerfroðu sem svipar til vikurs. Þaninn perlusteinn nefnist perlít og er víða notaður sem einangrunarefni í húsum. Um 1960 voru gerðar allmiklar athuganir á perlusteininum í Loðmundarskriðum með tilliti til útflutnings en aldrei varð neitt úr þeim áætlunum.

Aldur hlaupsins

[breyta | breyta frumkóða]

Loðmundarskriður eru unglegar og gætu jafnvel verið frá sögulegum tíma. Þær eru kenndar við Loðmund hinn gamla sem nam Loðmundarfjörð. Í Landnámu er frásögn af skriðunni. Loðmundur var rammaukinn mjög og fjölkunnugur. Þegar hann nálgaðist Ísland varpaði hann öndvegissúlum sínum fyrir borð og kvaðst mundu setjast þar að sem þær ræki á land. Síðan sigldi hann inn á Loðmundarfjörð og bjó þar hinn fyrsta vetur. Vorið eftir frétti hann af öndvegissúlum sínum sem borist höfðu á land undir Eyjafjöllum. Hann yfirgaf því Loðmundarfjörð með allt sitt en er hann sigldi út fjörðinn lagðist hann undir feld og fór með særingar. „En er hann hafði skamma hríð legið, varð gnýr mikill; þá sjá menn, að skriða mikil hljóp á bæ þann, er Loðmundur hafði búið á“.[1] Ljóst er á þessari frásögn að landnámuritari, eða heimildamenn hans, töldu að mikil skriða hefði fallið í Loðmundarfirði á landnámstíð.

  • Árni Hjartarson 1997. Loðmundarskriður. Náttúrufræðingurinn 67, 97-103
  • Ólafur Jónsson. 1976. Berghlaup. Ræktunarfélag Norðurlands, Akureyri.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Íslenzk fornrit I, bls. 302-304