Fara í innihald

Ljón

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ljón
Karlljón í Namibíu.
Karlljón í Namibíu.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Ætt: Kattardýr (Felidae)
Ættkvísl: Stórkettir (Panthera)
Tegund:
P. leo

Tvínefni
Panthera leo
(Linnaeus, 1758)

Ljón (fræðiheiti: Panthera leo) eru stór kattardýr sem lifa villt í Afríku sunnan Sahara og á einum stað á Indlandi. Þau eru talin eitt af aðalsmerkjum hinnar villtu náttúru Afríku og jafnan nefnd konungur frumskógarins. Þau hafa verið dýrkuð af afrískum ættbálkum í margar aldir fyrir styrk sinn og fegurð. Ljón eru einu stóru kattardýrin sem halda sig í hópum. Þau öskra einnig hæst allra kattardýra og geta öskur þeirra heyrst í allt að átta kílómetra fjarlægð. Ljón eru lítið eitt smærri en tígrisdýr og því einungis næststærstu kattardýrin.

Núverandi heimkynni: Blár. Söguleg heimkynni: Rauð.

Þrátt fyrir hið þekkta gælunafn konungur frumskógarins og konungur dýranna, þá lifa flest ljón á flatlendi og hafast við á sléttunni. Fyrr á tímum lifðu ljón um nánast gjörvallt meginlandið. Í dag sjást þau nær einungis í mið- og Suður-Afríku en auk þess finnst afar smár stofn ljóna í Gir skóginum á Indlandi.

Ljónynja

Ljón hafa gulbrúnan feld og geta orðið allt að 3 m að lengd með rófu og upprétt náð allt að 120 cm hæð. Karlljónin eru stærri en ljónynjurnar og geta vegið á við fimm manneskjur eða rúm 250 kg. En eldri og stærri ljónynjur vega yfirleitt á við þrjár og hálfa manneskju eða um 180 kg.

Fullorðin karldýr þekkjast af þykkum makka, sem liggur í kringum höfuðið og niður hálsinn og stundum alveg niður á maga. Engin önnur kattartegund hefur jafn áberandi mun á karl- og kvendýri.

Bæði karlljón og ljónynjur hafa barta á enda rófunar, nokkuð sem engin önnur kattaregund hefur. Í barta karlljóna er beitt bein. Gömul þjóðsaga hermir að ljónin noti bartann til að slá sig til reiði fyrir bardaga.

Ljónynja reynir að draga dauðann buffala á þurrt land.

Ljón éta yfirleitt stóra bráð eins og t.d. gasellur, sebrahesta, villigrísi og buffala. Þau hafa verið þekkt fyrir að geta ráðið niðurlögum svo stórrar bráðar sem ungra gíraffa. Þegar harðnar í ári og fæðu fer að skorta ráðast ljónin líka á minni dýr og sækja jafnframt í bráð og hræ sem önnur dýr hafa veitt.

Fæðuöflun

[breyta | breyta frumkóða]

Ljón eru félagslynd dýr og lifa í stórum hópum. Í hverjum hópi eru yfirleitt þrjú skyld fullvaxta karldýr með allt að þrjátíu ljónynjur og hvolpar. Kvendýrin eru yfirleitt frekar skyld hvert öðru. Ljónynjurnar sjá að mestu um veiðar og vinnu í hópnum þó svo að einstök ljónynja sé fullfær um að veiða upp á sitt einsdæmi ef þörf krefur. Kvendýrin reynast líka vera fljótari og betri til veiða en karldýrin. Kvenljón geta náð miklum hraða, eða allt að 60 km/klst meðan á eltingaleik stendur. Ljón eru mjög þolinmóð og geta setið um bráðina svo klukkutímum skiptir en eltingaleikurinn stendur aðeins yfir í örfáar mínútur. Eftir að bráð hefur verið drepin, þá öskra ljónynjurnar nokkur lágvær öskur sem segja hinum ljónunum að koma og fá sér að éta. Fullorðin karldýr koma fyrst, svo ljónynjurnar og síðast hvolparnir.

Oftast getur bráð ljóna hlaupið mun hraðar en meðalljón. Þess vegna veiða ljónin í vel skipulögðum hópum og læðast upp að bráðinni og reyna helst að umkringja hana áður en þau skjótast upp úr hávöxnu grasinu. En grasið á afrísku sléttunum er hvorki grænt né snöggt, heldur mjög hávaxið og er ljósbrúnt mest allt árið og er feldur ljónanna svipaður á litinn. Því falla ljónin vel inn í umhverfið sem gerir það erfitt fyrir önnur dýr að sjá þau. Litir sem gera dýr svona lík umhverfi sínu eru oftast kallaðir felulitir.

Ljónin veiða oftast í myrkri til að forðast hættulegan hita miðdegissólarinnar. Það hjálpar þeim líka að fela sig fyrir bráðinni. Ljón hafa afar góða nætursjón svo myrkrið hefur lítil áhrif á veiðihæfni þeirra.

Þó svo að fullorðnu karldýrin sjái ekki um veiðar, þá þjóna þau vissulega mikilvægu hlutverki. Karlljónin eru mun sterkari en kvenljónin sem gerir hann að mun betri verndara fyrir hjörðina. Þegar kvendýrin eru á veiðum kemur það sérstaklega í hlut karldýranna að gæta hvolpanna fyrir ógnum og rándýrum eins og hýenum. Ljón nota vöðvana og bardagatæknina til þess að gæta óðalsins og hvolpanna og halda óvinum í fjarlægð. Stundum geta þessir óvinir verið önnur ljón.

Ung karlljón eru rekin burt frá hjörðinni af eldri karlljónum um það leyti sem þau verða kynþroska. Þessi ungu karlljón eru kallaðir utangarðsljón {e. rogue}. Þeir ferðast einir eða með bræðrum sínum. Utangarðsljónin ræna oft mat frá smærri rándýrum, eins og hýenum, sem þeir reka í burtu. Utangarðsljónin veiða fyrir sjálf sig þar til þau eru fær um að taka að sér sína eigin hjörð.

Ljónynja með unga

Ljónynjur fæða venjulega tvo til fjóra hvolpa. Hvolparnir fæðast með doppóttan feld, sem hjálpar þeim að falla inn í grasið á sléttunni. Þegar ljónsungarnir eldast þá hverfa doppurnar. Aðeins nokkurra mánaða gamlir verða ljónsungarnir afar leikglaðir. Þeir elta hver annan um allar trissur og stökkva á allt sem hreyfist. Þessir leikir kenna ungunum grundvallaratriðin við veiðar og hjálpa þeim að verða góð veiðiljón þegar þeir eldast.

Hvolparnir eru aldir upp í hópum. Í hópnum eru það ekki bara mæðurnar sem að sjá um ungana, því aðrar ljónynjur sjá einnig um ljónsungana og oftar en ekki þá verða tvær ljónynjur eftir á meðan á veiðum stendur til að passa hvolpana. Ef að ljónshvolpur verður munaðarlaus, þá er það afar algengt að aðrar ljónynjur taki við uppeldinu, ef til vill frænka eða eldri systir.

Þegar ungt karlljón verður eins árs gamalt þá er það rekið burt frá hjörðinni af forystukarlinum eða körlunum. En ef forystukarlinn er orðin gamall og veikburða þá gerast þess dæmi að yngra ljónið berst við hann annað hvort eitt eða með hjálp annarra ungra karlljóna. Ef unga ljónið ber sigur úr býtum mun það taka við forustuhlutverkinu. Að öðrum kosti eru ungu ljónin hrakin á brott og gerast þá utangarðsljón, svo sem áður segir.

Nokkrar staðreyndir um ljón

[breyta | breyta frumkóða]
  • Venjuleg ljón sofa allt að 20 tíma á dag.
  • Þófaför ljóna eru eins og fingraför manna.
  • Gönguhraði ljóna er 4 km hraði á klukkustund en þau geta hlaupið á allt að 60 km hraða á klst. Þau geta einnig stokkið allt að 12 metra í einu stökki.

Ljón eru einnig þekkt fyrir að...

  • ...heilsast með því að nudda saman hökum.
  • ...kveðjast með því að narta í magann hvort á öðru.
  • ....vera háværustu dýr stóru kattanna. Öskur karlljóns getur heyrst í allt að átta kílómetra fjarlægð.
  • ....vera einu kattardýrin sem lifa í hjörðum og viðhafa goggunarröð.
  • ....vera einu kattardýrin sem veiða í hópum.
  • Þýtt úr kaflanum Lions í Wikijuniorbókinni Big Cats