Fara í innihald

Litla ísöld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hér má sjá hvernig hitastigið fellur niður í þónokkra lægð á hinni svokölluðu Litlu ísöld

Litla ísöld er hugtak sem notað er um langvarandi kuldatímabil, þó ekki sé um eiginlega ísöld að ræða. Oftast er átt við tímabilið 1450-1900, en einnig er talað um að kuldatímabil hafi byrjað um 1100 og staðið fram á 17. öld. Upp úr því hafi farið hlýnandi fram til um 1900 og hlýnunin aukist hratt upp frá því og er þá talað um heimshlýnun.[1]

Þær heimildir sem hægt er að styðjast við til að rannsaka þetta kuldatímabil eru einkum skrifaðar heimildir frá þessum tímum, en einnig rannsóknir á borkjörnum frá jöklum eins og Grænlandsjökli.

Ef skoðaðar eru ritheimildir kemur í ljós að áhrif þessara hitabreytinga hafa verið nokkrar á líf fólksins og ýmsar hamfarir áttu sér stað í Evrópu sem leiddu til dauða fólks. Hér eru nokkur dæmi:

 • 1595: Gietroz-jökullinn í Sviss stíflar ána Dranse og um 70 manns láta lífið.
 • 1600-1610: Chamonix-jökullinn í Frakklandi eyðir 3 þorpum.
 • 1670-1680: Mikil mannfækkun hjá íbúum í námunda við jökla í austurhluta Alpanna, á meðan fólki fjölgaði víða annarsstaðar í álfunni.
 • 1695-1709: Jöklar á Íslandi eyða mörgum bæjum og sveitum.
 • 1710-1735: Jöklar í Noregi stækka um 100 metra á ári á þessu 25 ára tímabili.
 • 1748-1750: Jöklar í Noregi ná sínu hámarki á Litlu ísöld. [2]

Þáttur Íslands í þeim hörmungum sem dundu yfir Evrópu á þessum tímum er nokkur. Árið 1783 hófust Skaftáreldar hér á landi sem munu vera með mestu eldsumbrotum á sögulegum tímum. Byrjun þeirra er sennilega best lýst með orðum Jóns Steingrímssonar, eldklerks:

„Þann 8. júní 1783 á Hvítasunnuhátíð gaus hér upp eldur upp úr afréttarfjöllum, sem eyðilagði land, menn og skepnur með sínum verkunum nær og fjær." [3]

Þessar hörmungar hafa haft mikil áhrif á afkomu Íslendinga á þessum tímum, en einnig fundu Evrópubúar fyrir þessum hamförum. Benjamin Franklin skrifaði um um bláleita móðu sem liðast yfir Evrópu og Norður-Ameríku þannig að sólar naut ekki eins lengi við og venjulega. [4] Þetta hefur haft mikil áhrif á hitafar og landbúnað eins og gefur að skilja.


Einkenni þessa kalda tímabils hefur einkum birst í því að landbúnaður hefur orðið erfiðari og sumstaðar í Evrópu styttist ræktunartíminn um tvo mánuði miðað við hvernig að honum er staðið í dag. Þetta hefur haft keðjuverkandi áhrif á ýmsa þætti samfélagsins, s.s. heilsu, fjárhag, stéttabaráttu og menningarlíf, svo eitthvað sé nefnt. Það er því ljóst að um er að ræða kuldaskeið sem fólk hefur fundið fyrir mjög áþreifanlega eins og hér á Íslandi þar sem smávægilegar hitabreytingar geta haft nokkur áhrif á hinn viðkvæma landbúnað sem menn stunduðu hér á fyrri öldum.

Ástæður Litlu ísaldar

[breyta | breyta frumkóða]

En hversvegna kólnaði svona á jörðinni á þessum stutta kafla í mannkynsögunni? Nokkrar skýringar hafa verið settar fram:

 1. Breytingar á virkni sólar.
 2. Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins.
 3. Breytingar á armengun.
 4. Breytingar á landnotkun.
 5. Eldgos.
 6. Breytingar á brautarþáttum jarðar.
 7. Tilviljunarkenndur, innri breytileiki hringrásar lofthjúps og sjávar. [5]

Breytingar á virkni sólar

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir hafa bent til þess að breytingar á virkni sólar hafi verið nokkrar á undanförnum öldum, sem kann að hafa áhrif á veðurfar. Samkvæmt rannsóknum J. Lean mun sólstuðullinn svokallaði hafa sveiflast um 3 Wm-2 á síðustu 400 árum.

Breytingar á efnasamsetningu lofthjúpsins

[breyta | breyta frumkóða]

Þessi þáttur er einkum bundin við áhrif mannsins og taldar hafa orsakað þær breytingar sem orðið hafa á veðurfarinu á 20. öld. Einhverjar breytingar urðu á magni koltvísýrings fyrir iðnbyltingu, en hversu miklar þær breytingar voru er ekki vitað. Munu þær breytingar hafa verið að einhverju leyti af mannavöldum, m.a. vegna breytinga á gróðurlendi.

Breytingar á armengun

[breyta | breyta frumkóða]

Slíkar breytingar urðu mestar á síðustu 2-3 hundruð árum og tengjast aukinni iðnvæðingu og umsvifum mannsins. En slík mengun er ekki talin hafa haft áhrif þegar litið er lengra aftur í tímann.

Breytingar á landnotkun

[breyta | breyta frumkóða]

Mikil skógeyðing í Kína og Evrópu á 18. öld, og í N-Ameríku og víðar á 19. öld er talin hafa haft einhver áhrif á þessar breytingar. Kemur þar til endurskinshlutfall jarðarinnar við sögu, því endurkasthlutfall akra er oft meira en endurkasthlutfall skóglendis, sem gat þýtt að meðalhiti lækkaði sérstaklega á veturna þegar akrarnir voru snævi þaktir.

Stór eldgos geta haft mikil áhrif á veðurfarið og þegar stór eldgos eru tíð er talið að hitafar sé lægra en þegar þau eru fátíðari.

Breytingar á brautarþáttum jarðar

[breyta | breyta frumkóða]

Breytingar á möndulhalla, sólnándarreki og hringviki eru af sumum fræðimönnum taldar hafa haft einhver áhrif á kólnun eftir aldamótin 1100.

Tilviljanakenndur, innri breytileiki hringrásar lofthjúps og sjávar

[breyta | breyta frumkóða]

Gerðar hafa verið tilraunir á að láta líkön lofthjúps og hafs ganga á sínum eigin breytileikum, en ljóst er að það eitt og sér skýrir ekki hitabreytingar, heldur er það líklegra að allir hinir ofangreindu þætti eigi sinn þátt í að stuðla að þessum breytingum í afar flóknu ferli.

Áhrif Litlu ísaldar á íslenskt veðurfar og samfélag

[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem aðallega er byggt á skriflegum heimildum þegar litið er til baka á hitafar fyrri alda getur verið erfitt að segja nákvæmlega fyrir um ýmis atriði varðandi hitasveiflur og hversu nákvæmar þær voru í samanburði við þá tækni sem við búum yfir í dag til að mæla veðurfar. En með því að skoða skriflegar heimildir er hægt að sjá hvernig þankagangur þjóðarinnar var, hvernig lýstu menn tíðarfarinu hverju sinni og hvað var það sem stóð upp úr að þeirra mati. Eftirfarandi vísa er eftir Bjarna skálda og eru úr Aldasöng hans frá því um 1600:

Nú dregur fjúk og frost
úr fénaði öllum kost,
oft koma ísar og snjóar,
óár til lands og sjóar,
sumarið, sem menn kalla,
sjást nú fuglar valla.

Vísa þessi segir lesendum mikið um hvernig tíðarandinn var á þessum tímum og hvernig svartsýni hefur gripið menn og þeir virðast muna eftir betri árum áður fyrr. Sumarið er ekki svipur hjá sjón og farfuglar láta varla sjá sig.

Eins og áður hefur komið fram er talað um að umrædd kólnun hafi byrjað í kringum árið 1100 og um 1200 hafi kuldaskeiðið byrjað að kólna verulega. Fyrir þann tíma virðist loftslag hafa verið nokkuð skaplegra en síðar var. Það virðist hafa verið nokkuð algengt hér á Íslandi að menn ræktuðu ýmsar korntegundir og sést það m.a. á ýmsum heimildum og á örnefnum sem tengjast akurlendi víða um land. Jöklar virðast hafa verið minni en þeir eru í dag, t.d. hét Vatnajökull lengi vel Klofajökull sem bendir til þess að hann hafi verið klofinn og í raun tveir jöklar. Athyglisvert er að þjóðveldisöld líkur um svipað leyti og kólnunin er talin hefjast af alvöru og mikill ófriður geisar í landinu í kringum aldamótin 1200 og sú óöld sem gjarnan er kennd við Sturlungaöld gæti að einhverju leyti tengst kólnandi veðurfari og um leið versnandi efnahag.

Í Annálum má oft sjá vísbendingar um veðurfar hverju sinni, t.d. hvernig harðindavetur gengu yfir landið eins og fram kemur í Skarðsannál þar sem sjá má að 17. öld hefur verið býsna hörð og sjá má hvernig sú ótíð hefur leikið þjóðina grátt. Þar bera einstök tímabil afar lýsandi heiti, nöfn á borð við Eymdarár (1604), Jarðbannsvetur eða Svellavetur (1625), Áfreðavetur eða Svelli (1627) og Jökulvetur (1630).

Þannig má sjá að heimildir landsmanna sýna að þeir hafa fundið fyrir breytingum á veðráttunni og því ljóst að þetta reikula tímabil sem við nefnum Litla Ísöld hefur snert við Íslendingum og hert lífsróður þeirra til muna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. http://www.vedur.is/loftslag/breytingar/landnam/
 2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. ágúst 2008. Sótt 28. mars 2008.
 3. http://www.islandia.is/hamfarir/jardfraedilegt/eldgos/skaftareldar.html#Gosi%F0
 4. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20041021154633/www.hunkubakkar.is/sagan.htm
 5. http://www.vedur.is/loftslag/breytingar/landnam/

Heimildir og tenglar

[breyta | breyta frumkóða]