Fara í innihald

Leópold 1. Belgíukonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Leópold I (Belgía))
Skjaldarmerki Sachsen-Coburg-Gotha-ætt Konungur Belgíu
Sachsen-Coburg-Gotha-ætt
Leópold 1. Belgíukonungur
Leópold 1.
Ríkisár 21. júlí 183110. desember 1865
SkírnarnafnLeopold Georg Christian Friedrich
Fæddur16. desember 1790
 Ehrenburg-höll, Coburg, Sachsen-Coburg-Saalfeld, Heilaga rómverska ríkinu
Dáinn10. desember 1865 (75 ára)
 Brussel, Belgíu
GröfÉglise Notre-Dame de Laeken, Brussel
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Frans, hertogi af Saxe-Coburg-Saalfeld
Móðir Augusta Reuss, greifynja af Ebersdorf
DrottningKarlotta af Wales (g. 1816; d. 1817)
Lovísa María af Orléans (g. 1832; d. 1850)
Börn
Loðvík Filippus krónprins, Leópold 2., Filippus prins, greifi af Flanders, Karlotta, keisaraynja Mexíkó

Leópold 1. (16. desember 1790 – 10. desember 1865) var þýskur fursti sem varð fyrsti konungur Belgíu eftir belgísku byltinguna árið 1830. Hann ríkti frá 1831 til 1865.

Leópold fæddist inn í ríkjandi aðalsfjölskyldu í þýska hertogadæminu Saxe-Coburg-Saalfeld. Hann gekk í rússneska herinn og barðist gegn Frökkum í Napóleonsstyrjöldunum þegar franski herinn réðst inn í Saxe-Coburg. Eftir að Napóleon var sigraður flutti hann til Bretlands og kvæntist Karlottu af Wales, sem var önnur í erfðaröðinni að bresku krúnunni og eina skilgetna barn Georgs erfðaprins (sem átti síðar eftir að verða Georg 4. Bretlandskonungur). Karlotta lést aðeins einu ári eftir brúðkaup þeirra en Leópold naut áfram nokkurra áhrifa í Bretlandi.

Eftir gríska sjálfstæðisstríðið (1821–32) var Leópold boðið að gerast konungur Grikklands en hann afþakkaði boðið þar sem hann grunaði að hið nýsjálfstæða Grikkland væri of óstöðugt. Hann þáði árið 1831 boð um að gerast konungur Belgíu eftir að Belgía vann sjálfstæði sitt. Belgíska ríkisstjórnin bauð Leópold krúnuna þar sem hann var tengdur konungsættum víðs vegar um Evrópu og var studdur af Bretum. Hann var auk þess ekki tengdur veldum eins og Frakklandi sem Belga grunaði að hygðu á landvinninga á kostnað Belgíu og gætu þannig ógnað evrópska valdajafnvæginu sem komið hafði verið á árið 1815 á Vínarfundinum.

Leópold sór embættiseið sinn sem konungur Belga þann 21. júlí 1831. Deginum er fagnað á hverju ári sem þjóðhátíðardegi Belgíu. Valdatíð hans einkenndist af tilraunum Hollendinga til að endurheimta yfirráð í Belgíu og síðar af pólitískri sundrung milli frjálslyndra Belga og kaþólikka. Leópold var sjálfur mótmælandi og þótti frjálslyndur og hlynntur efnahagslegri nútímavæðingu. Hann lék lykilhlutverk í lagningu fyrstu járnbrautar í Belgíu árið 1835 og síðan í belgísku iðnvæðingunni. Vegna óljóss orðalagsins í belgísku stjórnarskránni tókst Leópold að auka við völd konungsins á ríkisárum sínum. Honum tókst að koma í veg fyrir að byltingar ársins 1848 hefðu áhrif á Belgíu. Leópold dó árið 1865 og við honum tók sonur hans og nafni, Leópold 2. Belgíukonungur.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Konungur Belgíu
(21. júlí 183110. desember 1865)
Eftirmaður:
Leópold 2.