Beinakerling

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Beinakerling er varða úr grjóti sem ferðamenn stungu áður í miðum sem á voru skrifaðar lausavísur, svonefndar beinakerlingarvísur. Beinakerlingar voru hlaðnar við alfaraleið, oftast á fjallvegum, og var miðunum með vísunum stungið í sauðarlegg eða stórgripalegg sem síðan var komið fyrir í vörðunni og þess vegna voru vörðurnar nefndar beinakerlingar. Ekki er víst hve gamall þessi siður er en elstu varðveittar beinakerlingarvísur eru frá 17. öld.

Oft voru beinakerlingarvísur þessar klámfengnar eða tvíræðar og var þeim stundum beint að ákveðnum mönnum, sem þeir sem ortu bjuggust við að ættu brátt leið hjá vörðunni. Stundum voru þær ortar í orðastað kerlingarinnar og hún látin lýsa þrá sinni eftir tilteknum mönnum eða segja frá ástaleik þeirra. Sem dæmi má taka þessar vísur, sem ortar eru til Hólabiskups og því ekki yngri en frá 18. öld:

Herra minn góður Hólum frá,
hafið þér nóg að gera
í sænginni mér að sofa hjá
svo sem það á að vera.
Misst hef eg bæði megn og þrótt,
mörgum hafnað vinum,
eg hef vakað í alla nótt
eptir biskupinum.

Þessar vísur eru líklega annaðhvort úr beinakerlingunni á Kaldadal eða Stórasandi en þær voru þekktastar allra beinakerlinga.

Dæmi um beinakerlingavísur[breyta | breyta frumkóða]

 • Bjarni heitir/ borinn Halldóri
 • Ef þér herra ætlið að prýða elli mína
 • Ertu kominn Eiríkur minn elskulegur
 • Heill ver þú nú Skúli
 • Hér er Grettis gamla borg'
 • Illa mér á ykkur líst
 • Kaldbeina ég heiti
 • Mikinn rekkur ríkdóm ber
 • Nú er hugur minn
 • Týnd er æra, töpuð sál
 • Vídalín heitir/ sá er vinr kerlu
 • Þegar í Rófu ríkti hann Róm

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • „„Beinakerlingar". Blanda, 4.-6. hefti 1923“.
 • „„Beinakerling á Sprengisandi". Morgunblaðið, 52. tölublað (3.03.2001), Bls. 40“.