Laufás við Laufásveg
Laufás við Laufásveg er gamalt biskupssetur og sveitabýli við Tjörnina í Reykjavík. Íbúðarhúsið er bárujárnsklætt timburhús, byggt árið 1896, sem stendur við Laufásveg (nr. 48) í Reykjavík, og dregur gatan nafn sitt af húsinu. Það var byggt af Þórhalli Bjarnarsyni biskupi Íslands (1855-1916) og Valgerði Jónsdóttur eiginkonu hans (1863-1913), og nefndu þau það eftir Laufási við Eyjafjörð, þar sem Þórhallur var fæddur. Afkomendur Þórhalls og Valgerðar búa enn í húsinu.
Laufás við Laufásveg er elsta bóndabýlið í Reykjavík sem enn stendur. Þar má enn sjá leifar af gamalli tíð, til að mynda fornar garðhleðslur og hestastein.
Fyrrum ábúendur í Laufási, ásamt Þórhalli og Valgerði, voru þau Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands og kona hans Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú, dóttir Þórhalls og Valgerðar. Þá bjó Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn og frú Anna Guðrún Klemensdóttir kona hans í Laufási með hléum. Tryggvi var elstur barna Þórhalls og Valgerðar.