Fara í innihald

Landvættur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Landvættir)

Landvættur er verndarandi lands, vera sem heldur vörð um landið. Á Íslandi voru taldar vera fjórar landvættir, ein fyrir hvern fjórðung: Griðungur (Vestfirðir), Gammur (Norðurland), Dreki (Austfirðir) og Bergrisi (Suðurland). Landvættir þessar prýða skjaldarmerki Íslands.

Um Landvættirnar er sagt í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu:

Haraldur konungur bauð kunngum manni að fara í hamförum til Íslands og freista hvað hann kynni segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt. En er hann kom fyrir Vopnafjörð þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan eftir dalnum dreki mikill og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann. En hann lagðist í brott og vestur fyrir land, allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi og bar höfuðið hærra en fjöllin og margir aðrir jötnar með honum.

Þaðan fór hann austur með endlöngu landi. "Var þá ekki nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan en haf svo mikið millum landanna," segir hann, "að ekki er þar fært langskipum."

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.