Fara í innihald

Landslagsgarður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hof í grískum stíl í Pavlovskíjgarðinum í Sankti Pétursborg.

Landslagsgarður er stór garður með náttúrulegt yfirbragð og að mestu laus við formfasta hönnun. Hugmyndin þróaðist í Englandi á átjándu öld og náði fljótlega miklum vinsældum í Evrópu.[1]

Landslagsgarðar eru vanalega hannaðir á myndrænan hátt, oft með enskt beitarlandslag sem fyrirmynd og gjarnan með eftirmyndir af klassískum grískum og rómverkum hofum og öðrum byggingum. Algengt var að nota rómantískar landslagsmyndir Claude Lorrain og Nicolas Poussin sem fyrirmyndir, líkt og sjá má í garðinum í Stourhead. Frægustu hönnuðir enska landslagsstílsins voru William Kent[2] og Lancelot „Capability“ Brown. Garðar Kents einkennast af klassískum byggingum en garðar Browns eru að mestu lausir við byggingar og einkennast fremur af sveigðum útlínum skjólbelta og vatna og slegnum eða beittum grasflötum.

Þótt yfirbragð garðanna sé náttúrulegt eru þeir vandlega hannaðir, tré og annar gróður nákvæmlega skipulagður og vötn gjarnan gerð með lækjum og ám. Í stuttu máli má segja að þeir séu stílfærð mynd af enskum bithaga. Garðarnir eru vanalega umluktir niðurgröfnum veggjum sem voru kallaðir „ha-ha“. Þeir hafa þann tilgang að úr garðinum eru þeir lítt sjáanlegir og veita því óskert útsýni yfir búsetulandslagið í kring en halda jafnframt dýrum frá garðinum.

Þekktustu ensku landslagsgarðarnir eru Stowe-landslagsgarðurinn[3], Stourhead Garden[4] og Rousham.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Michael Symes (2000). A glossary of garden History. Shire publications. bls. 75.
  2. „Kent, William“. Gardenvisit.com. Sótt 21.7.2023.
  3. „Stowe Landscape Garden“. Gardenvisit.com. Sótt 21.7.2023.
  4. „Stourhead Garden“. Gardenvisit.com. Sótt 21.7.2023.
  5. „Rousham House and Garden“. Gardenvisit.com. Sótt 21.7.2023.