Líffélag

Plöntur, dýr, sveppir og örverur eru lífverur. Allar lífverur sem búa í sama vistkerfinu mynda líffélag. Plöntur, hornsíli, mýlirfur og stökkkrabbar eru hluti af líffélagi í tjörn. Skordýr, fuglar, tré, öll smádýrin og aðrar plöntur mynda líffélag í vistkerfi skógar. Þessar lífverur eru háðar hver annarri. Í eyðimörk eru skordýr og fuglar hluti af líffélagi og lifa þessar tegundir á plöntum. Önnur dýr, t.d. eðlur, nærast svo á eggjum fuglanna og einnig á skordýrum. Enn stærri dýr lifa svo á eðlunum. Plönturnar eru fæða plöntuætanna og hin dýrin lifa á plöntuætunum og öðrum dýrum. Það lifa ekki öll dýr í líffélagi á plöntum en þau dýr geta þó ekki lifað án plantanna. Plönturnar éta hins vegar ekki neitt en þær þurfa engu að síður næringu eins og aðrar lífverur og hana fá þær með því að framleiða næringu sjálfar. Innan líffélaga er oft talað um gróðursamfélag sem á þá við allar plöntur sem vaxa á sama svæði eða dýrasamfélag sem geta t.d. verið allar tegundir fugla sem lifa á einni eyju.[1][2]