Lárus Sveinbjörnsson
Lárus E. Sveinbjörnsson eða Lauritz Edvard Sveinbjörnsson (31. ágúst 1834 – 7. janúar 1910) var íslenskur lögfræðingur, sýslumaður, háyfirdómari, alþingismaður og bankastjóri.
Lárus var sonur Kristínar Cathrine Lauritzdóttur Knudsen (27. apríl 1813 – 8. janúar 1874) og Hans Edvard Thomsen (3. júlí 1807 – 27. apríl 1881), verslunarstjóra í Reykjavík og síðar kaupmanns í Vestmannaeyjum, en hann var kvæntur Katrínu systur Kristínar og vakti fæðing drengsins mikið umtal og hneykslun meðal Reykvíkinga. En árið 1840 varð Kristín seinni kona Þórðar Sveinbjörnssonar háyfirdómara, sem var 27 árum eldri en hún, og eignuðust þau saman átta börn, þar á meðal Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld. Þórður gekk Lárusi í föðurstað og ættleiddi hann og var hann því jafnan skrifaður Sveinbjörnsson.
Lárus varð stúdent frá Lærða skólanum 1855 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1863. Hann var fyrst kennari hjá Blixen-Finecke barón í Danmörku um hríð en var settur sýslumaður í Árnessýslu 1866 og bjó á Eyrarbakka. Árið 1868 var hann settur sýslumaður í Húnavatnssýslu og bjó þá á Húsavík en 1874 varð hann sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Reykjavík. 1878 varð hann dómari og dómsmálaritari í Landsyfirrétti og árið 1889 varð hann háyfirdómari og hélt því þar til hann lét af störfum 1908. Þegar Landsbankinn var stofnaður 1. júlí 1886 varð Lárus fyrsti bankastjóri hans og gegndi því starfi til 1893. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1882-1888 og konungkjörinn þingmaður 1885-1899.
Kona Lárusar var Jörgine Margarethe Sigríður Thorgrimsen (25. apríl 1849 – 6. desember 1915), dóttir Guðmundar Torfasonar Thorgrimsen kaupmanns á Eyrarbakka. Á meðal barna þeirra var Jón Hjaltalín Sveinbjörnsson konungsritari.