Kútter Sigurfari
Útlit
Kútter Sigurfari er 85 smálesta tvímastra kútter, smíðaður 1885 í Englandi og keyptur til Íslands 1897, en áður var hann gerður út frá Hull. Hann var gerður út til handfæraveiða á Faxaflóa og þótti mikið happaskip. Skipið var selt til Færeyja 1920 og komst þangað eftir að hafa lent í mánaðarlöngum hrakningum á sjó milli landanna. Frá Færeyjum var skipið gert út til 1970 en 1974 var báturinn aftur keyptur til Íslands að undirlagi Jóns M. Guðjónssonar prests á Akranesi. Hann stendur nú á steyptum undirstöðum á safnasvæðinu á Görðum á Akranesi.
Brot úr sögu Sigurfara
- 1885 var kútter gyggður í skipasmíðastöð Johns Wray & Sons í bænum Burton-on-Stat her sem er nálægt Hull. Skipið var líklega nefnt Bacchante og var gert út á til togveiða frá Hull þar til það er selt til Íslands.
- 1897 Jón Jónsson skipstjóri og útgerðarmaður í Melshúsum á Seltjarnarnesi fer í ferð til Hull til að kaupa kúttera og kaupir kútterinn fyrir 325 sterlingspund.
- 1897 Magnús T h. S. Blöndala trésmiður í Hafnarfirði kaupir kútterinn og gaf honum nafnið Guðrún Blöndahl eftir konu sinni.
- 1898 Pétur Sigurðsson útgerðarmaður í Hrólfsskála á Seltjarnarnesi og Gunnsteinn Einarsson skipstjóri í Skildinganesi kaupa kútterinn saman. Átti Pétur 2/3 en Gunnsteinn 1/3. Þeir gefa kútternum nafnið Sigurfari en það nafn hafði verið notað lengi á opnum bátum frá Hrólfskála. Kútterinn fékk einkennisstafina GK 17.
- 1908 H.P. Duus útgerðarfyrirtækið í Reykjavík kaupir kútterinn og fær hann sama nafn en einkennisstafina RE 136. Sigurfari var í mörg ár meðal aflahæstu skipa á Faxaflóa.
- 1909 Þann 21. apríl 1909 kom báruhnútur á kútter Sigurfara þegar hann staddur út af Selvogi og kastaðist skipstjórinn Einar Einarsson útbyrðis og drukknaði.
- 1919 Sören Sörensson á Viðareyri í Færeyjum kaupir kútterinn og komu sex Færeyingar hingað að sækja skipið en það tafðist að það væri ferðbúið og Færeyingarnir fóru heim og fjórir Íslendingar voru ráðnir á skipið
- 1920 Þann 19. janúar leggur kútterinn af stað til Færeyja og er skipstjóri Sigmund Mikkelsen og stýrimaður Ziska Jacobsen. Skipið fékk aftakaveður og hraktist um hafið milli Íslands og Færeyja í margar vikur. Stórbóman brotnaði og seglbúnaður skemmdist og vistir og eldaviður kláraðist. Skipið var að flytja kjöt, mjöl og rúsínur og þurftu skipsverjar að ganga í farminn til að bjarga sér frá sulti og nota bómuna og klæðningu úr lúkarnum til eldiviðar. Þann 4. febrúar taldi Sigmund skipstjóri að þeir myndu ekki hafa það af og sendi út flöskuskeyti sem síðar fannst í ágúst í fjöru í Skipsfjord á Vannoy í Noregi. Skipið var talið af og birtist frétt um það í Morgunblaðinu 17. febrúar. Tíu dögum síðar náði Sigurfari inn til Seyðisfjarðar. Þar í kaupstaðnum geysaði þar spænska veikin. Gert var við skipið og fimm Norðmenn bættust í hóp skipverja og eftir 12 daga var því siglt til Færeyja og tók sjóferðin til Klakksvíkur ekki nema 5 daga. Skipsverjar urðu vegna hættu á smiti vegna spænsku veikinnar að hírast í 10 daga í viðbót í einangrun í skipinu og voru þá 2 mánuðir frá því þeir lögðu úr höfn á Íslandi.
- 1921-1971 Sigurfari KG 378 var gerður út frá Viðareiði í eitt ár og síðan í um 50 ár frá Klakksvík.
- 1974 Sigurfari er keyptur til Íslands.
Til er allþekktur samnefndur söngtexti eftir Jónas Árnason við enska lagið „Shoals of herring“ eftir Ewan MacColl (byggt á söng og sögum Sam Larner frá Winterton í Norfolk).