Fara í innihald

Kyndilmessa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Á kyndilmessu er fagnað að 40 dagar eru frá fæðingu Jesús

Kyndilmessalatínu Praesentatio Domini; þ.e. Kynning Herrans, einnig nefnd á latínu Missa Candelarum, og Purificatio Mariæ) er kristinn helgidagur, einkum í kaþólsku og rétttrúnaðarkirkjunum, sem haldinn er hátíðlegur 2. febrúar. Nafnið er dregið af latneska orðinu candelarium sem merkir kerti. Hátíðin er haldin til minningar um þegar Jesúbarnið var fram borið í musterinu í Jerúsalem. Kyndilmessa er þess vegna hreinsunardagur Maríu meyjar, 40 dögum eftir fæðingu Krists. Á íslensku hefur hún einnig verið kölluð „hreinsunarhátíð blessaðrar Maríu meyjar”.

Tímasetning[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt Móselögum (3. Mósebók 12, 2-4) og hefðum gyðinga er kona talin óhrein í fjörutíu daga eftir að hún hefur fætt sveinbarn. Samkvæmt Lúkasarguðspjallinu tóku María og Jósef Jesúbarnið til musterisins fjörutíu dögum eftir fæðingu hans. Upphaflega var hátíðin haldin 14. febrúar enda var fæðing Jesú í frumkristni talin hafa átt sér stað 6. janúar. Á fjórðu öld var fæðingardagurinn fluttur yfir á 25. desember.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Á fyrstu öldum kristni var hátíðin haldin til minnis um fund Símeons og Jesú í musterinu samkvæmt 2. kapítula Lúkasarguðspjalls 25-40 enda var hátíðin þá nefnd Dagur heilags Símeons eða Hypapante (úr grísku fundur). Elstu heimildir um hreinsunarhátíð Maríu eru frá Jerúsalem snemma á 4. öld, en er þá reyndar bundin við 14. febrúar, þar sem þá var fæðingardagur Jesú enn talinn 6. janúar. Hátíðin var svo fyrirskipuð árið 524 af Jústiníanusi keisara í Konstantínópel. Árið 690 skipaði Sergius I. páfi í Róm, að á hreinsunarhátíðinni skyldi vígja öll kerti sem ætlað væri til helgigjörða á árinu. Á þessum degi var á miðöldum farin skrúðganga utan og innan kirkjubyggingarinnar og einnig út í kirkjugarð. Báru prestar og söfnuður logandi kerti í göngunni. Hátíðin fékk því nafnið missa candelarum á latínu en það þýðir kertamessa. Það sést oft í íslenskum fornbréfum frá 15. og 16. öld en eftir siðbreytingu er orðið kyndilmessa orðið allsráðandi.

Kyndilmessa á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Eftir siðaskipti lagðist hátíðin af eins og önnur Maríudýrkun en í kaþólskum sið og rétttrúnaðakirkjunni er ennþá haldið upp á daginn með ljósamessu. Á kyndilmessu er vetur hálfnaður en vetrarvertíð hófst áður fyrsta virka dag eftir kyndilmessu.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]