Krossgáta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krossgáta Ítalans Giuseppe Airoldi sem birtist í Ítalska tímaritinu Il Secolo Illustrato della Domenica, 14. september, 1890 er oft kölluð fyrsta krossgátan.

Krossgáta er orðagáta þar sem markmiðið er að finna orð, eftir vísbendingum sem gefnar eru upp fyrir hvert þeirra og færa þau inn í reitað form, oftast kassalaga, af auðum og skyggðum reitum. Orðin eru skrifuð í auðu reitina bæði lóðrétt og lárétt og því felst þrautinn í því að finna þau orð sem eiga sameiginlega stafi þar sem orðin skarast. Eru skyggðu reitirnir eða strik notaðir til að afmarka orðin hvert frá öðru. Oftast eru upphafsreitir orðanna númeraðir og vísað til þeirra eins og til dæmis, 3 lóðrétt eða 20 lárétt. Þó eru einnig til krossgátur þar sem vísbendingarnar eru settar inn í reitina sem annars væru skyggðir.

Upphafið[breyta | breyta frumkóða]

Sú krossgáta sem oftast er kölluð fyrsta krossgátan, eftir Arthur Wynne, sem birtist í bandaríska blaðinu New York World, 21. desember 1913.

Fyrsta krossgátan er oft talin vera gáta sem Ítalski blaðamaðurinn Giuseppe Airoldi samdi og birtist í Ítalska tímaritinu Il Secolo Illustrato della Domenica, 14. september, 1890. Kallaði hann þessa þraut sína "Per passare il tempo" (ísl. "Til að drepa tímann"). Gáta Airoldi var fjórum sinnum fjórir reitir án nokkurra skyggðra reita en vísbendingum um hvaða orð ætti að skrifa í reitina lárétt og lóðrétt og vísað til þeirra með númerum. [1]

Í bandaríska blaðinu New York World þann 21. desember 1913 birtist síðan gáta sem oftast er kölluð fyrsta krossgátan, undir nafninu "Fun's Word-Cross puzzle", en síðar var heitinu "Word-Cross" snúið við og seinnitíma gátur kallaðar á ensku "Crosswords". Höfundurinn var breskur blaðamaður að nafni Arthur Wynne og var hún eins og krossgáta Airoldi ólík krossgátum eins og þær þekkjast í dag, að því leiti að hún var tígullaga og hafði eins og gáta Airoldi enga skyggða reiti.

Orðaferningurinn, forveri krossgátunnar[breyta | breyta frumkóða]

Sator orðaferningur frá Oppede, Luberon í Frakklandi.

Wynne var innflytjandi frá Bretlandi og hafði sem barn kynnst leik er nefnist orðaferningur (e. word square). Hann gengur út á að fylla ferning af orðum eftir gefnum vísbendingum. Orðaferningurinn á rætur að rekja til svipaðra ferninga sem voru vel þekktir á miðöldum og í fornöld og voru almennt taldir með göldrum. Þekktastur þeirra er líklega svonefndur sator-ferningur en elsti ferningurinn af því tagi fannst í Herculaneum sem grófst undir ösku þegar fjallið Vesúvíus gaus á Ítalíu árið 79 e.Kr. Wynne virðist hafa haft orðaferninginn í huga þegar hann bjó til fyrstu krossgátuna og líklega Airoldi líka.

Margar heimildir eru til um Sator orðaferningin í gegnum aldirnar, þar á meðal í íslenskum handritum.

Orðaferningar forn-og miðalda einkennast af því að hægt er að lesa þá jafnt frá hægri til vinstri sem og vinstri til hægri, að ofan niður og að neðan upp. Sem dæmi þá er Sator orðaferningurinn svona:

S A T O R
A R E P O
T E N E T
O P E R A
R O T A S

Einnig voru til á miðöldum álíka orðaþríhyrningar og fleiri form. Þekktastur orðaþríhyrninga er eflaust Abrakadabra.

Skandinavíski stíllinn á krossgátum. Þær eru samheitakrossgátur og kallaðar á ensku Clue in square eða vísbendingar í reitum. En þá eru vísbendingarnar hafðar í þeim reitum sem annars væru skyggðir inn í krossgátunni sjálfri, auk þess að nota oftast einnig myndir sem vísbendingar að einu orði eða setningum
Bandaríski stíllinn á krossgátum.

Íslenskar krossgátur[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er vitað hver samdi elstu þekktu krossgátuna á Íslandi sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 20. mars 1927. Hún er samheitakrossgáta og inniheldur tvö dönsk orð og gæti fyrirmyndin því verið þaðan en danskar krossgátur voru í þessum sama stíl á þeim tíma, þótt þær breyttust seinna yfir í skandinavíska stílinn.

Tímaritið Fálkinn birti síðan þann 23. júní 1928 krossgátu eftir Sigurkarl Stefánsson og er talið líklegt að hann sé einnig höfundur eldri krossgátunnar, þar sem hann hafði stundað nám í Danmörku og fluttist aftur heim til Íslands 1928. Lengi vel var Sigurkarl einnig einn helsti krossgátuhöfundurinn hérlendis.[2]

Árið 1933 í tímaritinu Vorið, barnablaði sem gefið var út á Akureyri, má finna orðaleik sem höfundurinn kallar krossgátu en líkist meira orðaferningi eins og þeim sem fyrstu höfundar krossgáta virðast hafa haft til hliðsjónar. Þar stendur:

a a á
s s i
r r æ
Raða þessum stöfum þannig að fram komi bæði lóðrétt og lárétt: kvenmannsnafn, karlmannsnafn og haf. [3]

Hamrammar krossgátur[breyta | breyta frumkóða]

Breski stíllinn á krossgátum.

Árið 1999 hóf Morgunblaðið að birta reglulega undir heitinu Sunnudagskrossgátann hamrammar krossgátur (e. cryptic crosswords) að breskri fyrirmynd eftir Ásdísi Bergþórsdóttur kerfisfræðing en slíkar krossgátur höfðu ekki áður náð neinni fótfestu hérlendis.[4]

Síðar hóf göngu sína sambærileg gáta á helgarblaði Fréttablaðsins eftir Ævar Örn Jósepsson blaðamann og rithöfund. Heldur hann jafnframt úti hóp síðu á Facebook þar sem fólk getur ráðskast við hvort annað, sem og höfundin, um gáturnar hanns enda Hamrammar krossgátur líklega erfiðustu krossgáturnar.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Storia delle parole crociate e del cruciverba“ (ítalska). Crucienigmi. Sótt 30. janúar 2012.
  2. „Hver er saga krossgátunnar?“. Vísindavefurinn. Sótt 30. janúar 2012.[óvirkur tengill]
  3. „Krossgátur“. Vorið. Sótt 18. ágúst 2012.
  4. „Oftast með hálfkláraða krossgátu í rassvasanu“. Morgunblaðið. Sótt 30. janúar 2012.
  5. „Krossgátann“. Facebook. Sótt 9. febrúar 2017.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var að hluta til „Crossword“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. janúar 2012.

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu