Klementía af Ungverjalandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stytta Klementíu drottningar.

Klementía (129312. október 1328) eða Clémence d'Anjou var frönsk hefðarkona á 14. öld, seinni kona Loðvíks 10. Frakkakonungs og drottning Frakklands og Navarra frá 1315 – 1316.

Klementía var dóttir Karls Martels af Anjou, sem var sonur Maríu af Ungverjalandi og gerði tilkall til ungversku krúnunnar eftir lát Ladislás 4. árið 1290, og Klementíu af Habsburg, dóttur Rúdólfs 1. keisara. Foreldrar Klementíu dóu báðir þegar hún var í bernsku og faðir hennar varð aldrei konungur en Karl bróðir hennar varð hins vegar konungur Ungverjalands árið 1312. Hún ólst upp hjá Maríu ömmu sinni, sem búsett var í Napólí.

Klementía giftist Loðvík 10. Frakkakonungi 19. ágúst 1315, fimm dögum eftir að Margrét drottning, fyrri kona hans, dó í fangelsinu sem hún hafði setið í frá 1314 og er talið víst að konungur hafi látið myrða hana til að geta gifst að nýju. Klementía og Loðvík voru krýnd 24. ágúst.

Hjónabandið entist þó ekki árið því Loðvík dó í júní árið eftir. Klementía var þá þunguð. Filippus mágur hennar varð ríkisstjóri en ríkiserfðirnar voru í óvissu og allir biðu þess að sjá hvort barnið yrði drengur eða stúlka, þar sem konur áttu ekki erfðarétt að frönsku krúnunni. Klementía eignaðist son, Jóhann, 16. nóvember og varð hann konungur Frakklands við fæðingu. Hann lifði þó aðeins í fimm daga og þá varð Filippus konungur.

Klementía og Filippus urðu fljótt ósátt þar sem hann neitaði að greiða henni þann lífeyri sem Loðvík hafði ætlað henni og skrifaði hún mörg bréf, bæði til fjölskyldu sinnar og Jóhannesar XXII páfa, til að leita stuðnings. Hún dvaldi í Aix-en-Provence til 1321 en kom þá aftur til Parísar og var við hirð Karls mágs síns, sem varð konungur 1322. Hún dó 12. október 1328. Eigur hennar voru seldar á uppboði og er skráin yfir þær einhver ítarlegasta eignaskrá sem til er frá hennar tíð, níutíu og níu blaðsíður þar sem hverjum grip í eigu hennar er ítarlega lýst og sagt frá hver keypti hann.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]