Fara í innihald

Khaleda Zia

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Khaleda Zia
খালেদা জিয়া
Khaleda Zia árið 2010.
Forsætisráðherra Bangladess
Í embætti
20. mars 1991 – 30. mars 1996
ForsetiShahabuddin Ahmed (starfandi)
Abdur Rahman Biswas
ForveriKazi Zafar Ahmed
EftirmaðurMuhammad Habibur Rahman (til bráðabirgða)
Í embætti
10. október 2001 – 29. október 2006
ForsetiShahabuddin Ahmed
Badruddoza Chowdhury
Iajuddin Ahmed
ForveriLatifur Rahman (til bráðabirgða)
EftirmaðurIajuddin Ahmed (til bráðabirgða)
Persónulegar upplýsingar
Fædd1945
Jalpaiguri, Bengal, Breska Indlandi (nú Bangladess)
ÞjóðerniBangladessk
StjórnmálaflokkurÞjóðernisflokkur Bangladess
MakiZiaur Rahman (g. 1960⁠–⁠1981)
Börn2
StarfStjórnmálamaður

Khaleda Zia (f. 1945) er bangladessk stjórnmálakona sem hefur tvívegis verið forsætisráðherra Bangladess; frá 1991 til 1996 og frá 2001 til 2006. Hún hefur verið leiðtogi bangladesska Þjóðernisflokksins frá árinu 1984. Zia var fyrsta konan til að gerast forsætisráðherra Bangladess og önnur konan sem var kjörin ríkisstjórnarleiðtogi í landi þar sem múslimar eru í meirihluta á eftir Benazir Bhutto í Pakistan.[1]

Í tæp þrjátíu ár hefur helsti keppinautur Zia verið leiðtogi Awami-bandalagsins, Sheikh Hasina.[2] Konurnar tvær skiptust á því að vera forsætisráðherrar landsins (að undanskildum bráðabirgðastjórnum) frá árinu 1991 til ársins 2024.

Foreldrar Zia voru Iskandar og Taiyaba Majumder. Talið er að hún hafi fæðst þann 15. ágúst árið 1945 í Dinajpur í núverandi norðvesturhluta Bangladess, en skráningar á fæðingardegi hennar eru nokkuð á reiki. Fjölskylda hennar var frá sýslunni Feni í suðausturhluta landsins. Khaleda Zia gekk í ríkisrekinn stúlknaskóla í Dinajpur og síðan í Surendranath-háskólann í Kolkata. Árið 1960 giftist hún herforingjanum Ziaur Rahman.

Eiginmaður Khaledu varð yfirmaður bangladesska hersins árið 1975 og gerðist því ríkisstjórnarleiðtogi eftir að herinn framdi valdarán og kom á herlögum í landinu. Hann reyndi að koma aftur á borgaralegri stjórn og stofnaði því nýjan stjórnmálaflokk, bangladesska Þjóðernisflokkinn (BNP), og var síðan kjörinn forseti Bangladess árið 1978. Khaleda Zia varð þar með forsetafrú landsins.

Ziaur Rahman var myrtur þann 30. maí árið 1981 í misheppnaðri herforingjabyltingu. Varaforsetinn Abdus Sattar tók við forsetaembættinu og við formennsku Þjóðernisflokksins. Á svipuðum tíma hóf Khaleda Zia sjálf þátttöku í stjórnmálum. Árið 1983 útnefndi Abdus Sattar hana varaforseta BNP. Næsta ár, eftir að Sattar var steypt af stóli, var hún kjörinn forseti flokksins.

Forsætisráðherra Bangladess

[breyta | breyta frumkóða]

Zia var forsætisráðherra Bangladess frá 20. mars 1991 til 30. mars 1996 og frá 10. október 2001 til 29. október 2006. Hún var fyrsta konan til að stýra ríkisstjórn landsins. Flokkur hennar sniðgekk þingkosningar árið 2014 til að mótmæla framkvæmd þeirra undir umsjá forsætisráðherrans Sheikh Hasina, erkikeppinautar Khaledu. Eftir að Zia var dæmd fyrir spillingu þann 30. október árið 2018 var hún lýst ókjörgeng samkvæmt landslögum sem svipta fólk kjörgengi ef það hefur verið dæmt í meira en tveggja ára fangelsi.[3]

Í byrjun ársins 2018 var Zia ákærð í 37 ákæruliðum fyrir spillingu í starfi.[3] Bandamenn hennar fordæmdu ákærurnar og lýstu þeim sem pólitískum ofsóknum.[3]

Þann 8. febrúar 2018 var Zia dæmd í fimm ára fangelsi fyrir spillingu. Hún var sökuð um að hafa dregið sér 21 milljón bangladesskra taka (andvirði um 28 milljóna íslenskra króna) sem átti að verja í rekstur munaðarleysingjahælis á valdatíð sinni frá 1991 til 1996. Sonur hennar, Tarique Rahman, og nokkrir aðstoðarmenn hennar voru jafnframt sakfelldir.[3] Zia var leyst gagnvart tryggingu þann 12. mars 2018 en þann 30. október sama ár var dómur hennar hækkaður í tíu ára fangelsi af áfrýjunardómstóli.[4]

Zia var dæmd í sjö ára fangelsi til viðbótar í svipuðu dómsmáli þann 29. október 2018.[5] Hún var sökuð um að hafa dregið sér andvirði um 45 milljóna íslenskra króna sem ætlaðar voru opinberum verkefnum.[6]

Mohammed Shahabudd­in, forseti Bangladess, skipaði lausn Zia úr fangelsi þann 6. ágúst 2024 í kjölfar blóðugra mótmæla sem leiddu til þess að Sheikh Hasina hrökklaðist frá völdum.[7]

Árið 2006 taldi bandaríska tímaritið Forbes Zia 33. voldugustu konu í heimi.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Hatursfull kona leysir varla vanda Bangladesh“. Morgunblaðið. 17. mars 1991. Sótt 5. febrúar 2020.
  2. „Tvær konur berjast um völdin“. Fréttablaðið. 1. október 2001. Sótt 30. desember 2018.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Au Bangladesh, la chef de l'opposition condamnée à cinq ans de prison“ (franska). Le Monde. Sótt 9. febrúar 2020.
  4. „Bangladesh: L'ex-Première ministre Khaleda Zia libérée sous caution“. Challenges. 12. mars 2018. Sótt 9. febrúar 2020.
  5. „Dæmd aft­ur í fang­elsi“. mbl.is. 29. október 2018. Sótt 9. febrúar 2020.
  6. „Bangladesh: l'ex-Première ministre Khaleda Zia à nouveau condamnée“. RfI. 12. mars 2018. Sótt 9. febrúar 2020.
  7. „Fyrrverandi forsætisráðherrann laus úr fangelsi“. mbl.is. 6. ágúst 2024. Sótt 7. ágúst 2024.


Fyrirrennari:
Kazi Zafar Ahmed
Forsætisráðherra Bangladess
(20. mars 199130. mars 1996)
Eftirmaður:
Muhammad Habibur Rahman
(til bráðabirgða)
Fyrirrennari:
Latifur Rahman
(til bráðabirgða)
Forsætisráðherra Bangladess
(10. október 200129. október 2006)
Eftirmaður:
Iajuddin Ahmed
(til bráðabirgða)