Fara í innihald

Ketill Þorláksson hirðstjóri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ketill Þorláksson (d. 7. október 1342) var íslenskur riddari og hirðstjóri á 14. öld. Hann bjó á Kolbeinsstöðum.

Ketill var af ætt Skarðverja, sonur Þorláks lögmanns Narfasonar á Kolbeinsstöðum og sonarsonur Skarðs-Snorra. Móðir hans hét Helga Nikulásdóttir og var afkomandi Sturlu Þórðarsonar. Ketill hafði sýsluvöld á Vestfjörðum frá 1312. Hann fór til Noregs 1313, gerðist handgengin Hákoni háleggi, fékk herranafnbót og kom heim 1314 með konungsbréf sem samþykkt voru á Alþingi árið eftir.

Hann var einn andstæðinga Auðunar rauða Hólabiskups og var stefnt út til Noregs 1319 ásamt Snorra lögmanni föðurbróður sínum og Hauki Erlendssyni. Ketill kom aftur út 1320 með hirðstjóranafnbót og fór um landið árið eftir og lét menn sverja Magnúsi konungi Eiríkssyni trúnaðareiða, en hann var þá nýtekinn við ríki þriggja ára að aldri.

Ketill kom meðal annars að deilumálum um Möðruvallaklaustur 1327 eða 1328. Árið 1330 er hans getið í hópi tiginna gesta í frægu brúðkaupi í Haga á Barðaströnd. Hann sigldi 1332 og kom aftur 1334, sigldi enn 1336 og virðist ekki hafa komið aftur fyrr en 1340. Hugsanlegt er að hann hafi verið hirðstjóri allt til 1341 með Eiríki Sveinbjarnarsyni en hefur sjálfsagt haft einhverja umboðsmenn eða fógeta fyrir sig þegar hann var erlendis.

Kona Ketils var Una Guttormsdóttir, systir Jóns skráveifu, en ætt þeirra systkina er ekki þekkt.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Máldagi Kolbeinsstaðakirkju. Sunnudagsblað Tímans 25. október 1970“.


Fyrirrennari:
?
Hirðstjóri
með Eiríki Sveinbjarnarsyni frá 1323
(1320? – eftir 1335)
Eftirmaður:
Eiríkur Sveinbjarnarson