Eiríkur Sveinbjarnarson
Eiríkur Sveinbjarnarson (f. um 1277, d. 1342) var íslenskur riddari og hirðstjóri á 14. öld og bóndi í Vatnsfirði.
Eiríkur var sonur Sveinbjarnar Sigmundssonar í Súðavík (d. 1290), sem var dóttursonur Hrafns Sveinbjarnarsonar. Nafn konu Sveinbjarnar og móður Eiríks er óþekkt en þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Einars Þorvaldssonar í Vatnsfirði, sonar Þorvaldar Vatnsfirðings, banamanns Hrafns. Hákon háleggur Noregskonungur gerði Eirík að riddara 1316 og hann varð hirðstjóri norðan og vestan árið 1323 og hélt því embætti allt til 1341. Hann leigði Flugumýri af Hólabiskupi og hefur trúlega haft þar bú.
Kona Eiríks var Vilborg Sigurðardóttir (d. 1343) og er talið að faðir hennar hafi verið Sigurður seltjörn Sighvatsson og Valgerðar Hallsdóttur seinni konu hans. Sonur þeirra var Einar Eiríksson bóndi í Vatnsfirði, faðir Björns Jórsalafara.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]
Fyrirrennari: Ketill Þorláksson |
|
Eftirmaður: Bótólfur Andrésson |