Fara í innihald

Katrín af Valois, Englandsdrottning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúðkaup Hinriks 5. og Katrínar af Valois.

Katrín af Valois eða Katrín af Frakklandi (27. október 14013. janúar 1437) var frönsk konungsdóttir sem var drottning Englands frá 1420 til 1422 sem eiginkona Hinriks 5. og móðir Hinriks 6. Englandskonungs.

Drottning Englands

[breyta | breyta frumkóða]

Katrín var yngsta dóttir Karls 6. Frakkakonungs og konu hans Ísabellu af Bæjaralandi. Þegar faðir hennar og Hinrik 5. Englandskonungur sömdu frið 1420 var meðal annars samið um að Hinrik fengi Katrínu fyrir konu og þar sem einnig var samið um að Hinrik skyldi erfa krúnu Karls að honum látnum var gert ráð fyrir að Katrín yrði drottning bæði Englands og Frakklands. Hinrik dó hins vegar 31. ágúst 1422, tveimur mánuðum á undan tengdaföður sínum, og þótt Katrín hefði alið son, Hinrik 6., átta mánuðum áður, féll franska krúnan ekki honum í hendur, heldur Karli 7., syni Karls 6. og bróður Katrínar, enda var hann réttborinn erfingi. Hinrik 6. réði þó yfir hluta Frakklands og kallaði sig konung Frakklands og gerði kröfu til krúnunnar allt til 1453.

Katrín er sögð hafa verið bráðfalleg og Hinrik 5. varð mjög hrifinn af henni. Hún var átján ára þegar þau giftust en hann 33 ára. Þau giftust í Frakklandi 2. júní 1420 og fóru síðan til Englands, þar sem Katrín var krýnd í Westminster Abbey 23. febrúar 1421. Um sumarið hélt Hinrik til Frakklands í frekari herfarir en Katrín var þá barnshafandi og ól son sinn 6. desember. Hinrik konungur sá aldrei son sinn því hann dó úr blóðkreppusótt um haustið og Hinrik litli varð konungur. Og þegar afi hans dó tveimur mánuðum síðar varð hann einnig konungur yfir þeim hluta Frakklands sem Englendingar réðu.

Ekkjudrottning

[breyta | breyta frumkóða]

Bróðir Hinriks 5., Humphrey, hertogi af Gloucester, stýrði Englandi og hafði miklar áhyggjur af því að ekkjudrottningin unga giftist aftur og þá einhverjum sem mundi seilast til valda. Hann lét því þingið setja lög um að ef ekkjudrottningar vildu giftast aftur þyrftu þær samþykki konungsins, ella yrðu allar eignir nýja eiginmannsins gerðar upptækar. Slíkt samþykki gat konungur því aðeins veitt að hann væri lögráða en þegar lögin voru sett var Hinrik 6. aðeins sex ára.

Þrátt fyrir þetta hóf Katrín samband við Walesbúann Owen ap Maredudd ap Tudor, eða Owen Tudor. Líklega hafa þau gifst leynilega en þó er það ekki fullvíst. Þau áttu að minnsta kosti fimm börn saman og þau voru seinna talin skilgetin. Það var þó ekki skjalfest fyrr en löngu síðar, þegar þörf var á að styrkja erfðatilkall Tudor-ættar. Synir þeirra, Jasper og Edmund, komust upp auk tveggja dætra. Katrín var veik þegar hún gekk með yngsta barnið, leitaði sér lækninga í Bermondsey-klaustri og dó þar 3. janúar 1437, nokkrum dögum eftir að hún ól barnið.

Eftir lát Katrínar lögsóttu óvinir þeirra Owens hann fyrir að brjóta lögin um endurgiftingu drottningar en honum tókst að hreinsa sig af öllum sökum. Þrátt fyrir það var hann handtekinn skömmu síðar, eignir hans gerðar upptækar og hann hafður í haldi í tvö ár. Konungurinn, sem þá var orðinn lögráða, var velviljaður bæði honum og hálfbræðrum sínum og Owen var áfram við hirðina.