Kapella hins heilaga blóðs
Kapella hins heilaga blóðs (Heilig-Bloedbasiliek) er kirkjubygging í flæmsku borginni Brugge í Belgíu. Kapellan líkist þó ekki ekki kirkju að utan. Hún er sögð hefa að geyma blóð úr líkama Jesú.
Saga kirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Það voru greifarnir í Flæmingjalandi sem reistu kirkjuna 1134-1157 og var hún notuð fyrir greifana og ættmenn þeirra. Kirkjan var sett milli tveggja annarra húsa, þannig að ekki reyndist unnt að smíða eiginlega kirkju, heldur er lítur hún út eins og fagur framhlið glæsilegs íbúðarhúss. Kapellur eru hins vegar á tveimur hæðum í byggingunni. Neðri kapellan er helguð heilögum Basil og er nánast óbreytt frá 12. öld. Róbert II, greifi af Flæmingjalandi, kom heim úr krossferð með líkamsleifar af heilögum Basil og voru þær settar upp í neðri kapellunni. Þar er einnig Madonnuhöggmynd frá 14. öld. Efri kapellan var hins vegar endursmíðuð á 16. öld í gotneskum stíl og hefur síðan verið margbreytt.
Blóð Jesú
[breyta | breyta frumkóða]Meðan á smíði kapellunar stóð fór Thierry greifi í krossferð til Jerúsalem árið 1147-49. Þegar hann sneri heim aftur til Brugge 1150 var hann með pjötlu í farteskinu, en hún var sögð hafa að geyma blóð úr klæði Jesú. Sagan segir að Jósef frá Arímaþeu hafi geymt klæðið, en hann var sá sem lagði Jesú í gröfina eftir krossfestinguna. Engar heimildir eru hins vegar til um tilvist pjötlunnar fyrir 1250. Trúlega hefur hún borist til Brugge eftir að Konstantínópel var rænd af krossförum 1204 í fjórðu krossferðinni. En helgigripurinn var settur upp í efri kapelluna og upp úr 1250 var farið að kalla hana Kapellu hins heilaga blóðs. Síðan þá hefur pjatlan gegnt veigamiklu hlutverki í trúarlífi borgarbúa. 1310 gaf Klemens V páfi út bréf þar sem hann veitti pílagrímum aflát ef þeir sóttu kapelluna heim og börðu pjötluna augum. Pjatlan sjálf er geymd í litlu glerhylki sem áður fyrr var notuð fyrir ilmvatn og átti uppruna sinn í eða við Konstantínópel á 12. öld. Hylkið hefur ekki verið opnað síðan það kom til Brugge, enda lokað og innsiglað með vaxi.
Helgiganga
[breyta | breyta frumkóða]Ein mesta helgiganga í Belgíu er haldin á uppstigningardegi í Brugge. Þá er pjatlan með blóði Jesú sett á vagn og um 3.000 manns, klæddir helgiklæðum, ganga með honum um götur borgarinnar. Meðan gangan stendur yfir er með leiksýningu sýnt hvernig pjatlan kom til Brugge. Allt að 100 þús manns mæta á göturnar til að fylgjast með. Kaþólikkar halda því fram að blóðið á pjötlunni breytist í vökva meðan á helgigöngunni stendur, en storknar aftur að henni lokinni. Helgiganga þessi var innleidd árið 1303, en hafði að einhverju leyti verið til síðan á miðri 13. öld. Belgar kalla helgigönguna Brugges schoonste dag (besti dagur Brugges). Helgigangan, og allt sem henni tengist, er á sérstökum UNESCO-lista yfir heimsminjar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Basiliek van het Heilig Bloed“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. nóvember 2012.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Heilig Bloedbasiliek (museum) Geymt 28 febrúar 2006 í Wayback Machine
- Inventaris onroerend erfgoed