Kaldalón
Kaldalón er stuttur fjörður við norðanvert Ísafjarðardjúp. Þar rennur jökuláin Mórilla um vaðla og leirur um lónið sjálft í fjölmörgum farvegum. Hlíðarnar upp að lóninu eru kjarri vaxnar. Austan megin hafa varðveist húsarústir Trymbilstaða. Vestan Mórillu er Lónhóll þar sem munnmæli segja að eitt sinn hafi staðið bær. Fyrir ofan hólinn er kletturinn Keggsir með rauðleitan drang sem heitir Sigga.
Frá veginum í botni fjarðarins er vinsæl gönguleið að Drangajökli. Þegar gengið er inn dalinn taka við flatir grasbalar og loks þverhníptir hamraveggir. Í dalbotninum, að austan, eru 300 metra há Votubjörg. Að baki þeirra taka við enn hærri hamraveggir þar sem Kaldalónsjökull skríður niður í dalinn og Mórilla steypist niður í háum fossi. Kaldalónsjökull er skriðjökull úr Drangajökli.
Við sunnanvert Kaldalón hefur verið reistur minnisvarði um tónskáldið og lækninn Sigvalda Kaldalóns, sem bjó um ellefu ára skeið að Ármúla á Langadalsströnd, nálægt mynni Kaldalóns.
Fyrir utan Kaldalón eru nokkrir bæir: Bæir undir Bæjarhlíð, Dalbær, Lyngholt og Unaðsdalur í mynni Unaðsdals. Unaðsdalur er kirkjustaður og þar stendur samnefnd kirkja. Utar er svo bærinn Tyrðilmýri. Þaðan er stutt til Æðeyjar.