Fara í innihald

Kuomintang

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá KMT)
Þjóðernisflokkur Kína
Kuomintang
中國國民黨
Zhōngguó Guómíndǎng
Leiðtogi Eric Chu
Aðalritari Lee Chien-lung
Stofnár 1912; fyrir 112 árum (1912)
Höfuðstöðvar 232234, Sec. 2, BaDe Rd., Zhongshan-hverfi
Taípei, Lýðveldinu Kína
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frjálslynd íhaldsstefna, kínversk þjóðernishyggja, þrjú lögmál fólksins, hægristefna
Einkennislitur Blár  
Sæti á löggjafarþinginu
Vefsíða www1.kmt.org.tw

Kuomintang[1][2] eða KMT; oft þýtt sem Þjóðernisflokkur Kína, er valdamikill stjórnmálaflokkur í Lýðveldinu Kína á Taívan sem situr um þessar mundir í stjórnarandstöðu á taívanska löggjafarþinginu.

Forveri Kuomintang var Byltingarbandalagið (Tongmenghui), sem var ein hreyfinganna sem steypti af stóli Tjingveldinu og stofnaði lýðveldi í Kína árið 1912. Song Jiaoren og Sun Yat-sen stofnuðu Kuomintang stuttu eftir Xinhai-byltinguna árið 1911. Sun varð forseti kínverska lýðveldisins til bráðabirgða eftir stofnun þess en hann steig til hliðar svo Yuan Shikai gæti gerst forseti stuttu síðar. Chiang Kai-shek tók síðar við forystu Kuomintang, stofnaði Þjóðbyltingarherinn og tókst með norðurleiðangri sínum árið 1928 að sameina Kína á ný eftir að ríkið hafði klofnað í umráðasvæði fjölmargra stríðsherra í kjölfar hruns Tjingveldisins. Kuomintang réð yfir Kína til ársins 1949 en þá tapaði flokkurinn kínversku borgarastyrjöldinni gegn kommúníska Alþýðulýðveldinu Kína. Stuðningsmenn Kuomintang flúðu til Taívan og stofnuðu þar gerræðislegt flokksræði. Ríkisstjórn Kuomintang á Taívan hélt sæti Kína í Sameinuðu þjóðunum til ársins 1971.

Flokksræði Kuomintang á Taívan lauk árið 1987 og ýmsar umbætur frá og með tíunda áratuginum hafa dregið nokkuð úr völdum flokksins. Kuomintang er þó enn einn helsti stjórnmálaflokkur Taívans og sat síðast við völd frá 2008 til 2016. Í kosningum árið 2016 tapaði flokkurinn hins vegar bæði þing- og forsetakosningum fyrir Lýðræðislega framfaraflokknum og frambjóðanda hans, Tsai Ing-wen.

Undirstoð hugmyndafræði flokksins eru „þrjú lögmál fólksins“ sem Sun Yat-sen lagði drög að. MNT er meðlimur í „bláa flokksbandalaginu“ sem styður að stefnt verði að stjórnarsameiningu við meginlandið. Kuomintang hefur þó neyðst til að draga úr sumum kröfum sínum þar sem sameining við meginland Kína er í reynd afar langsótt. Kuomintang heldur opinberlega stefnu um „eitt Kína“ og lítur formlega svo á að ríkisstjórn Lýðveldisins Kína á Taívan sé hin eina lögmæta ríkisstjórn Kína en ekki meginlandsstjórn Alþýðulýðveldisins Kína. Í því skyni að draga úr spennu í samskiptum við alþýðulýðveldið hefur KMT þó frá árinu 2008 viðurkennt stefnu sem útilokar sameiningu, sjálfstæði og valdbeitingu á Taívan.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Party Charter“. Kuomintang. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. febrúar 2013. Sótt 31. júlí 2018.
  2. „Introduction of the KMT“. Kuomintang. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. janúar 2011. Sótt 31. júlí 2018.
  3. Ralph Cossa (21. janúar 2008). „Looking behind Ma's 'three noes'. Taipei Times. Sótt 31. júlí 2018.