Fara í innihald

Kökustríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Frakkar varpa sprengjum á San Juan de Ulúa árið 1838.

Kökustríðið var milliríkjadeila milli Frakklands og Mexíkó árin 1838 og 1839 sem leiddi til innrásar Frakka í Mexíkó.

Forsaga[breyta | breyta frumkóða]

1828 ríkti borgarastríð í Mexíkó þar sem fylgismenn Manuel Gómez Pedraza þáverandi forseta Mexíkó, börðust við fylgismenn þeirra Lorenzo de Zavala, sem Pedraza hafði rekið úr embætti sem fylkisstjóri Mexíkófylkis, og Antonio López de Santa Anna hershöfðingja. Zavala og Santa Anna höfðu sigur og tilnefndu Vicente Guerrero sem forseta Mexíkó.

Átökin ollu miklu eignatjóni sem stjórnvöld vildu ekki bæta. Erlendir ríkisborgarar beindu þá kvörtunum sínum til ríkisstjórna sinna sem gerðu kröfur á hendur Mexíkóstjórn. Stjórnvöld Mexíkó hunsuðu allar kröfur um fjárhagslegar bætur.

Kökustríðið[breyta | breyta frumkóða]

1838 lagði franski bakarinn Remontel fram kröfu um skaðabætur vegna skemmda sem búð hans í Tacubaya nálægt Mexíkóborg hafði orðið fyrir í þessum átökum. Mexíkóstjórn sinnti sem fyrr engu kröfum um bætur.

Mexíkó hafði þegar svikist um greiðslur á frönskum lánum og Frakklandsstjórn ákvað að fara í hart. Krafa var gerð upp á 600.000 pesóa bætur sem var hunsuð. Floti var því sendur til stranda Mexíkó þar sem hann átti að framfylgja hafnbanni á mexíkóskar hafnir og leggja undir sig hafnarborgina Veracruz.

28. nóvember 1838 höfðu Frakkar náð yfirhöndinni við Veracruz og sigrast á virkinu San Juan de Ulúa. Mestallur floti Mexíkó var í Veracruz og féll í hendur Frakka.

Eftir milligöngu Breta náðust sættir og Mexíkóstjórn lofaði að greiða pesóana 600.000. 9. mars 1839 drógu Frakkar lið sitt frá Mexíkó.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • "Pastry War." Encyclopædia Britannica“. Sótt 30. nóvember 2005.
  • „A War Over Pastries“. Sótt 30. nóvember 2005.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Pastry War“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. nóvember 2005.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.