Fara í innihald

Judi Dench

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Judi Dench
Judi Dench árið 2007
Judi Dench árið 2007
Upplýsingar
FæddJudith Olivia Dench
9. desember 1934 (1934-12-09) (89 ára)
Heworth, York, Englandi
Ár virk1957–
MakiMichael Williams ​(g. 1971; d. 2001)
BörnFinty Williams
Helstu hlutverk
Óskarsverðlaun
Besta leikkona í aukahlutverki fyrir Shakespeare in Love (1998)

Dame Judith Olivia Dench (f. 9. desember 1934[1]) er ensk leikkona. Hún hóf leikferil sinn árið 1957 í leikhúsinu Old Vic í London. Á næstu árum birtist hún í ýmsum leikritum eftir Shakespeare, meðal annars sem Ófelía í Hamlet, Júlía í Rómeó og Júlíu og Lafði Makbeð í Makbeð. Á þessum tíma lék Dench aðallega á sviði en fór einnig að birtast í kvikmyndum og vann BAFTA-verðlaun sem efnilegasti nýliðinn fyrir leik sinn í söngleiknum Kabarett árið 1968.

Á næstu tveimur áratugum varð Dench smám saman einn þekktasti sviðsleikari Bretlands og birtist í ýmsum hlutverkum í sýningum Konunglega þjóðleikhússins og Konunglega Shakespeare-félagsins. Hún hlaut góða dóma fyrir hlutverk sín í sjónvarpi á sama tíma, meðal annars fyrir þættina A Fine Romance (ísl. Tilhugalíf; 1981–1984) og As Time Goes By (ísl. Æviárin líða; 1992–2005), þar sem hún lék eitt aðalhlutverkið. Kvikmyndahlutverk hennar á þessum tíma voru fá en á meðal þeirra mátti nefna aukahlutverk í myndum á borð við A Room With a View (1986). Hún varð heimsfræg árið 1995 þegar hún tók að sér hlutverk persónunnar M í James Bond-kvikmyndunum frá og með myndinni GoldenEye. Hún birtist í síðasta sinn sem M í Bond-myndinni Spectre árið 2015.[2]

Dench hefur sjö sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna og vann verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir túlkun sína á hlutverki Elísabetar 1. Englandsdrottningar í kvikmyndinni Shakespeare in Love árið 1998. Hinar Óskarsverðlaunatilnefningar Dench voru fyrir hlutverk hennar í Mrs Brown (1997), Chocolat (2000), Iris (2001), Mrs Henderson Presents (2005), Notes on a Scandal (2006) og Philomena (2013). Hún hefur hlotið ýmsar fleiri tilnefningar fyrir leik sinn á sviði, í kvikmyndum og í sjónvarpi, meðal annars sex verðlaun bresku kvikmyndaakademíunnar, fjögur BAFTA-sjónvarpsverðlaun, sjö Olivier-verðlaun, tvö Screen Actors Guild-verðlaun, tvö Golden Globe-verðlaun og ein Tony-verðlaun. Hún vann einnig heiðursverðlaunin BAFTA Fellowship árið 2001, sérstök Olivier-verðlaun árið 2004 og heiðursverðlaun bresku kvikmyndastofnunarinnar í júní árið 2011.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Entertainment: Hollywood's premier Dame“. BBC News. 24. febrúar 2002. Sótt 13. janúar 2012.
  2. „Judi Dench Always Has To Correct One Fact About Her Time On The James Bond Movies“. Cinema Blend. 5. janúar 2018. Sótt 25. desember 2018.
  3. "Dame Judi Dench receives BFI fellowship" 23 June 2011, BBC News