Judi Dench
Judi Dench | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Judith Olivia Dench 9. desember 1934 Heworth, York, Englandi |
Ár virk | 1957– |
Maki | Michael Williams (g. 1971; d. 2001) |
Börn | Finty Williams |
Helstu hlutverk | |
| |
Óskarsverðlaun | |
Besta leikkona í aukahlutverki fyrir Shakespeare in Love (1998) |
Dame Judith Olivia Dench (f. 9. desember 1934[1]) er ensk leikkona. Hún hóf leikferil sinn árið 1957 í leikhúsinu Old Vic í London. Á næstu árum birtist hún í ýmsum leikritum eftir Shakespeare, meðal annars sem Ófelía í Hamlet, Júlía í Rómeó og Júlíu og Lafði Makbeð í Makbeð. Á þessum tíma lék Dench aðallega á sviði en fór einnig að birtast í kvikmyndum og vann BAFTA-verðlaun sem efnilegasti nýliðinn fyrir leik sinn í söngleiknum Kabarett árið 1968.
Á næstu tveimur áratugum varð Dench smám saman einn þekktasti sviðsleikari Bretlands og birtist í ýmsum hlutverkum í sýningum Konunglega þjóðleikhússins og Konunglega Shakespeare-félagsins. Hún hlaut góða dóma fyrir hlutverk sín í sjónvarpi á sama tíma, meðal annars fyrir þættina A Fine Romance (ísl. Tilhugalíf; 1981–1984) og As Time Goes By (ísl. Æviárin líða; 1992–2005), þar sem hún lék eitt aðalhlutverkið. Kvikmyndahlutverk hennar á þessum tíma voru fá en á meðal þeirra mátti nefna aukahlutverk í myndum á borð við A Room With a View (1986). Hún varð heimsfræg árið 1995 þegar hún tók að sér hlutverk persónunnar M í James Bond-kvikmyndunum frá og með myndinni GoldenEye. Hún birtist í síðasta sinn sem M í Bond-myndinni Spectre árið 2015.[2]
Dench hefur sjö sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna og vann verðlaun sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir túlkun sína á hlutverki Elísabetar 1. Englandsdrottningar í kvikmyndinni Shakespeare in Love árið 1998. Hinar Óskarsverðlaunatilnefningar Dench voru fyrir hlutverk hennar í Mrs Brown (1997), Chocolat (2000), Iris (2001), Mrs Henderson Presents (2005), Notes on a Scandal (2006) og Philomena (2013). Hún hefur hlotið ýmsar fleiri tilnefningar fyrir leik sinn á sviði, í kvikmyndum og í sjónvarpi, meðal annars sex verðlaun bresku kvikmyndaakademíunnar, fjögur BAFTA-sjónvarpsverðlaun, sjö Olivier-verðlaun, tvö Screen Actors Guild-verðlaun, tvö Golden Globe-verðlaun og ein Tony-verðlaun. Hún vann einnig heiðursverðlaunin BAFTA Fellowship árið 2001, sérstök Olivier-verðlaun árið 2004 og heiðursverðlaun bresku kvikmyndastofnunarinnar í júní árið 2011.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Entertainment: Hollywood's premier Dame“. BBC News. 24. febrúar 2002. Sótt 13. janúar 2012.
- ↑ „Judi Dench Always Has To Correct One Fact About Her Time On The James Bond Movies“. Cinema Blend. 5. janúar 2018. Sótt 25. desember 2018.
- ↑ "Dame Judi Dench receives BFI fellowship" 23 June 2011, BBC News