Johannes Bureus
Johannes Bureus – eða Johan Bure, fullu nafni Johannes Thomae Agrivillensis Bureus – (15. mars eða 25. mars 1568 – 22. október 1652), var sænskur fornfræðingur, málfræðingur, dulspekingur, skáld og vísindamaður. Hann var fyrsti þjóðminjavörður og landsbókavörður Svía, og fyrsti rúnafræðingur þeirra. Hann er stundum kallaður faðir sænskra málvísinda.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Johannes Bureus fæddist í Åkerby í Uppsalastifti. Foreldrar hans voru Thomas Mattiae kirkjuvörður og Magdalena Burea, af svokallaðri Bure-ætt, sem varð fjölmenn í hópi menntamanna og kirkjuhöfðingja á stórveldistíma Svíþjóðar. Foreldrar hans áttu gott bókasafn og í nágrenninu var fjöldi rúnasteina, sem hvort tveggja hafði mikið að segja um það hvert áhugamál hans beindust. Hann stundaði nám í Uppsölum og víðar.
Johannes Bureus var fjöfræðingur eins og algengt var á þeirri tíð, kunni fjölda tungumála, latínu, grísku, hebresku, arabísku, finnsku o.fl., og fékkst við margar fræðigreinar. Á árunum 1611–1634 hafði hann umsjón með bóka- og skjalasafni ríkisins, og má því telja hann fyrsta landsbókavörð og ríkisskjalavörð Svía.
Árið 1630 var hann skipaður þjóðminjavörður, þegar því embætti var komið á fót, og gegndi því til 1648. Þar hafði hann frumkvæði að því að prestarnir í Uppsalastifti voru fengnir til að lýsa fornminjum í sóknum sínum.
Johannes Bureus er talinn fyrsti sænski málfræðingurinn og faðir sænskra málvísinda. Hann hóf fræðilegar rannsóknir á sænskri tungu, tók saman fornsænska málfræði, sem nú er glötuð, og hóf vinnu við sænska orðabók. Hann hafði mikinn áhuga á rúnum og gaf út rit um þær, t.d. Runokenslones lerespon, 1599, og Runa-ABC-boken, 1611, sem var ætluð skólum. Hann teiknaði um 200 rúnasteina og hafa sumir þeirra glatast síðan.
Hann rannsakaði forn handrit og gaf m.a. út Konunga och Hövdingastyrelsen, 1634, en það er sænskt rit frá því um 1350, sem er hliðstætt Konungsskuggsjá en ekki eins frumlegt rit, því að það er að mestu þýtt úr latínu. Hugsanlegt er að það hafi verið samið fyrir Hákon 6. Magnússon, síðar konung. Starf Bureusar við að leita uppi og lýsa fornminjum og birta á prenti forn handrit, lagði grunninn að því blómaskeiði í sænskum fornfræðirannsóknum sem stóð fram yfir 1700, og leiddi síðar til nýrrar vakningar í þeim fræðum á 19. öld.
Meðal handrita sem hann átti var Ormsbók, eða Bók Orms Snorrasonar.
Hann hafði mikil áhrif á næstu kynslóð sænskra fornfræðinga, svo sem Olof Verelius, Laurentius Bureus o.fl.
Dulspeki eða dulhyggja var áberandi þáttur í lífsstarfi hans.
Johannes Bureus giftist (1591) Margaretha Mårtensdotter Bång. Seinni kona hans (1636) var Ingeborg Gyntesdotter.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Johannes Bureus“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. maí 2010.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Johannes Bureus: Runa-ABC-boken (1611) – Netútgáfa Geymt 24 janúar 2010 í Wayback Machine