Laurentius Bureus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Laurentius Bureus (eða Lars Bure) (1623 eða 1624 – 1665), var sænskur fornfræðingur, og þjóðminjavörður Svía 1657–1665.

Hann fæddist líklega í Stokkhólmi, sonur biskupsins Jacobus Zäbråzynthius (Bureus) og Catharina Nilsdotter Bothniensis Stiernman.

Hann varð stúdent í Uppsölum 1640 og hóf þá nám í fornfræði hjá Johannesi Bureus. Frá árinu 1647 tók hann þátt í rannsóknarferðum um landið sem aðstoðarmaður Johannesar Bureus. Á árunum 1651–1657 var hann erlendis við gagnasöfnun og nám, einkum í Leiden og Kaupmannahöfn. Árið 1657 var hann skipaður þjóðminjavörður og var einnig prófessor í sagnfræði í Uppsalaháskóla 1658–1661. Hann dó í Stokkhólmi 1665. Hann var ógiftur.

Laurentius Bureus var ekki atkvæðamikill fræðimaður og ekkert af verkum hans var prentað. Hann hélt áfram rannsóknum læriföður síns á rúnasteinum og lauk þeim hluta sem fjallaði um Uppland. Hann hóf vinnu við stóra fornsænska orðabók en lauk aðeins við bókstafina A og B. Í sambandi við þá vinnu orðtók hann íslensk handrit, t.d. Ormsbók, enda litu menn svo á að málið á þeim væri „fornsænska“. Þá skrifaði hann upp handrit og þýddi fornrit.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Svenska män och kvinnor 1, Stockholm 1942:504.