Joachim Neander
Joachim Neander (1650 í Bremen – 31. maí 1680 í Bremen) var þýskur prestur í lúterskum sið, sálmaskáld og tónsmiður. Neanderdalurinn, sem fornmaðurinn eru kenndur við, er nefndur eftir honum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Joachim Neander var sonur Johanns Joachims Neander, sem einnig var prestur. Faðirinn var fæddur Neumann, en breytti eftirnafni sínu í Neander. Joachim nam guðfræði í Bremen, en starfaði á ungum árum í Heidelberg og Frankfurt am Main. 1674 varð Neander skólastjóri Latínuskólans í Düsseldorf, ásamt því að vera aðstoðarprestur þar. Það var á þeim árum sem hann hóf að semja texta við ýmsa kirkjusálma. Sálmana sótti hann oftar en ekki úr kaþólskum bókum, en hann sjálfur var lúterskur, eins og skólinn og kirkjan þar sem hann starfaði. Árið 1679 sneri hann aftur til heimaborgar sinnar, Bremen, þar sem hann fékk starf sem aðstoðarprestur í Martinikirkjunni. Þar hélt hann áfram að semja texta við sálma. Neander dó þar á heimili sínu innan við ár eftir að hann sneri aftur heim, þá aðeins 29 eða 30 ára gamall. Ekki er vitað úr hverju hann lést. Ekki er heldur vitað hvar hann liggur grafinn, en sumir vilja meina að hann hvíli undir Martinikirkjunni í Bremen.
Sálmar
[breyta | breyta frumkóða]Neander er einn mesti sálma- og textahöfundur í lúterskum sið. Hann gaf út ýmsar sálmabækur meðan hann starfaði í Düsseldorf. Sú þekktasta birtist 1680. Hún markaði tímamót í lúterskum lofsöngvum og sálmasöng. Enn í dag eru margir sálmar í þýskum sálmabókum eftir hann, þó sérstaklega textar. Einn þekktasti sálmurinn eftir Neander er Vakið og biðjið (Lobet den Herren), sem einnig er að finna í íslensku sálmabók þjóðkirkjunnar.
Neanderdalur
[breyta | breyta frumkóða]Meðan Neander starfaði í Düsseldorf átti hann það til að fara út í náttúruna þar sem hann samdi gjarnan texta og tónlist. Eftirlætisstaður hans var dalverpi nokkurt nálægt borginni. Þar sat hann gjarnan við kletta við ána Düssel. Í dalnum hélt hann einnig útisamkomur og guðsþjónustur. Á 19. öld var dalurinn nefndur Neanderdalur, honum til heiðurs. Árið 1856 fundust mannabein í helli nokkrum í dalnum. Þegar farið var að skoða þau nánar, kom í ljós að hér var um áður óþekkt bein úr fornmanni að ræða. Fornmaður þessi fékk um síðir heitið Neanderdalsmaðurinn.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Joachim Neander“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt desember 2009.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Lobe den Herren, den mächtigen König (MIDI-Datei der Melodie bei Wikimedia Commons) (Sálmurinn Vakið og biðjið spilaður, textalaus)