Jens Steindór Benediktsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jens Steindór Benediktsson (13. ágúst 19101. desember 1946) var íslenskur guðfræðingur, blaðamaður, þýðandi og rithöfundur. Hann fæddist á Spákonufelli á Skagaströnd en fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur árið 1925. Árið 1935 var hann meðal félaga í Flokki þjóðernissinna og árið eftir varð hann ritstjóri málgagns flokksins, Íslands. Árið 1938 var hann í 20. sæti lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík og þá titlaður laganemi.

Hann giftist Guðríði Guðmundsdóttur árið 1940 og sama ár eignuðust þau dóttur. Um sama leyti hóf hann nám í guðfræði við Háskóla Íslands og tók að sér blaðaskrif í lausamennsku fyrir Morgunblaðið, einkum knattspyrnulýsingar. Hann lauk prófi í guðfræði árið 1942 og átti að taka við prestsembætti að Hvammi í Laxárdal ári síðar. Þegar til kom var prestsetrið ekki laust til ábúðar. Hann ákvað því að verða um kyrrt í Reykjavík og gerðist blaðamaður hjá Morgunblaðinu. Þar fékkst hann við ritdóma og íþróttafréttir. Hann tók meðal annars þekkt viðtal við Halldór Laxness á Gljúfrasteini sem birtist í Morgunblaðinu 4. september 1946.

Jens gaf út eitt smásagnasafn með frumsömdum sögum, Vor á nesinu, sem kom út 1941 en áður hafði ein saga eftir hann birst í Eimreiðinni. Hann fékkst nokkuð við þýðingar og þýddi meðal annars Norsk æfintýri eftir Asbjørnsen og Moe, Sumar og ástir eftir Vicki Baum og Stríðsherrann á Mars eftir Edgar Rice Burroughs. Jens skrifaði hluta fyrsta bindis uppflettiritsins Hvar - Hver - Hvað ásamt Geir Aðils sem kom út 1946.

Hann varð bráðkvaddur 36 ára gamall eftir aðeins fjögurra daga veikindi. Þau Guðríður eignuðust tvær dætur.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.