Fara í innihald

Norsk ævintýri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Norsk æfintýri)
Kápa útgáfu frá 1896.

Norsk ævintýri er norskt þjóðsagnasafn eftir Peter Christen Asbjørnsen og Jørgen Moe. Asbjørnsen og Moe, sem kynntust við kennslu í Norderhov, hófu að safna sögum frá suðurhéruðum Noregs árið 1837. Fyrstu sagnasöfnin komu út á árunum 1841 til 1844. Eftir það varð Moe prestur og síðar biskup en Asbjørnsen hélt áfram söfnun þjóðsagna. Sögurnar voru upprunalega á norskum mállýskum en þeir ákváðu að gefa þær út á dönsku ritmáli þess tíma þótt frásagnarstíllinn fengi að halda sér. Upphaflega kom safnið út í heftum en fyrstu bókarútgáfurnar komu út 1843 og 1844. Asbjørnsen gaf síðan út safn af ævintýrum og sögnum endursögðum með rammafrásögnum ásamt persónulegum minningum í tveimur bindum 1845 og 1848 (Norske folke- og huldre-eventyr). Sögur úr báðum söfnunum voru síðar oft gefnar út saman. Fyrsta slíka safnið var Norske Folke- og Huldre-Eventyr i Udvalg ved P. Chr. Asbjørnsen sem kom út 1879 með myndskreytingum eftir Peter Nicolai Arbo, Hans Gude, Vincent St. Lerche, Eilif Peterssen, August Schneider, Otto Sinding, Adolph Tidemand og Erik Werenskiold. Síðar bættust myndir eftir Theodor Kittelsen við safnið.

Sögurnar komu út á ensku sem Popular Tales from the Norse í þýðingu George Dasent árið 1859. Fyrsta þýðingin á íslensku var eftir Theodóru Thoroddsen og kom út 1940 með myndskreytingum eftir Atla Má. Fyrsta stóra heildarútgáfan var þýðing Jens Steindórs Benediktssonar sem kom út í þremur bindum 1943 og 1944 með norsku myndskreytingunum.