Jean Anthelme Brillat-Savarin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Titilsíðan á Eðli bragðsins í útgáfu frá 1848.

Jean Anthelme Brillat-Savarin (1. apríl 17552. febrúar 1826) var franskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem er þó þekktastur sem lífsnautnamaður og matmaður.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Brillat-Savarin fæddist inn í lögfræðingafjölskyldu í bænum Belley í Ain þar sem áin Rhône skildi milli Frakklands og Savoja. Hann lærði lögfræði, efnafræði og læknisfræði í Dijon og gerðist eftir það lögmaður í heimabæ sínum. Þegar Franska byltingin hófst árið 1789 var hann sendur sem fulltrúi á franska stéttaþingið sem fljótlega breyttist í franska stjórnlagaþingið þar sem hann aflaði sér nokkurrar frægðar, aðallega fyrir ræðu til varnar dauðarefsingu.

Útlegð[breyta | breyta frumkóða]

Þegar stjórnlagaþingið var leyst upp sneri hann aftur heim og hélt áfram lögmannsstörfum. Þegar ógnarstjórnin hófst var lausnargjald sett til höfuðs honum þar sem hann var gírondíni og hann leitaði hælis í Sviss sem pólitískur flóttamaður. Síðar flutti hann til Hollands og enn síðar til nýstofnaðra Bandaríkjanna. Þar dvaldi hann í þrjú ár í Boston, New York, Philadelphiu og Hartford og lifði á frönskukennslu og fiðlukennslu. Um tíma var hann fyrsta fiðla í Park Theatre í New York-borg.

Dómarastörf í Frakklandi[breyta | breyta frumkóða]

Hann sneri aftur til Frakklands 1797 á tímum stjórnarnefndarinnar til að gerast ritari hershöfðingjans Charles Pierre François Augereau í Rínarhernum en fékk skyndilega stöðu sem dómari við hæstarétt. Hann gegndi þeirri stöðu til dauðadags. Hann tók síðara ættarnafn sitt upp eftir frænku sinni sem hét Savarin þegar hún arfleiddi hann að öllum auðæfum sínum með því skilyrði að hann tæki upp nafn hennar. Hann giftist aldrei.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Brillat-Savarin gaf út nokkur rit um lögfræði og hagfræði en frægasta rit hans er Physiologie du goût („Eðli bragðsins“) sem kom út 1825, aðeins tveimur mánuðum fyrir lát hans. Fullur titill er Physiologie du Goût, ou Méditations de Gastronomie Transcendante; ouvrage théorique, historique et à l'ordre du jour, dédié aux Gastronomes parisiens, par un Professeur, membre de plusieurs sociétés littéraires et savantes.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]