Fara í innihald

Jane Fonda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jane Fonda
Jane Fonda á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2015.
Jane Fonda á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2015.
Upplýsingar
FæddJane Seymour Fonda
21. desember 1937 (1937-12-21) (87 ára)
New York-borg, New York, Bandaríkjunum
Ár virk1960–
MakiRoger Vadim (g. 1965; skilin 1973)
Tom Hayden (g. 1973; skilin 1990)
Ted Turner (g. 1991; skilin 2001)
Börn3
Helstu hlutverk
Bree Daniels í Klute
Barbarella í Barbarella
Brenda Morel í Youth

Jane Fonda (f. 21 desember 1937) er bandarísk leikkona, aðgerðasinni og fyrirsæta. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á ferli sínum og meðal annars unnið til Óskarsverðlauna tvisvar sinnum auk fjölda annarra viðurkenninga.

Jane er dóttir hjónanna Henry Fonda leikara og Frances Ford Seymour. Hjónin skildu og skömmu síðar veiktist Frances Ford alvarlega og var að lokum vistuð á geðsjúkrahúsi og fyrirfór sér árið 1950 þegar Jane var á þrettánda ári.

Jane Fonda hóf leikferil sinn á sviði í Broadway árið 1960 í leikritinu There Was a Little Girl, og hlaut í kjölfarið tilnefningu til Tony verðlaunanna sem besta leikkonan. Síðar sama ár þreytti hún frumraun sína á hvíta tjaldinu er hún lék í rómantísku gamanmyndinni Tall Story. Í kjölfarið lék hún í fjölda kvikmynda, t.d. Period of Adjustment (1962), Sunday in New York (1963), Cat Ballou (1965), Barefoot in the Park (1967) og Barbarella (1968) en fyrsti eiginmaður Jane var leikstjóri Barbarella, Roger Vadim.

Fonda hefur sjö sinnum verið tilnefnd til Óskarsverðlauna en hún hlaut fyrst tilnefningu fyrir kvikmyndina They Shoot Horses, Don't They? árið 1969 og átti síðar eftir að hljóta tvenn Óskarsverðlaun á áttunda áratugnum, fyrir Klute árið 1971 og Coming Home árið 1978. Aðrar Óskarsverðlaunatilnefningar voru fyrir leik í kvikmyndunum Julia (1977), The China Syndrome (1979), On Golden Pond (1981) og The Morning After (1986).

Árið 1982 gaf Jane Fonda út sitt fyrsta líkamsræktarmyndband Jane Fonda's Workout sem í kjölfarið varð mest selda myndband allra tíma. Myndbandið var hið fyrsta af 22 líkamsræktarmyndböndum sem Fonda gaf út næstu þrettán árin. Samanlagt seldust myndböndin í 17 milljónum eintaka.

Árið 1991 giftist Jane Fonda auðkýfingnum og fjölmiðlakónginum Ted Turner og gerði í kjölfarið hlé á leikferli sínum. Eftir skilnað þeirra tíu árum síðar snéri Fonda sér aftur að leiklistinni og lék í nokkrum kvikmyndum Monster-in-Law (2005), Georgia Rule (2007), The Butler (2013), This Is Where I Leave You (2014), Youth (2015), Our Souls at Night (2017) og Book Club (2018).

Árið 2009, snéri hún aftur á leiksvið í Broadway eftir 49 ára hlé, í leikritinu 33 Variations og hlaut fyrir hlutverks sitt þar tilnefningu til Tony verðlaunanna sem besta leikkona á leiksviði. Síðar lék hún í sjónvarpsþáttaröðinni The Newsroom (2012–2014) og hlaut tvær tilnefningar til Emmy verðlaunanna. Árin 2010 og 2012 gaf Jane út tvö líkamsræktarmyndbönd til viðbótar. Síðustu ár hefur Fonda leikið í sjónvarpsþáttaröðinni Grace and Frankie sem hóf göngu sína árið 2015.

Baráttukonan Jane Fonda

[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum tíðina hefur Fonda látið ýmis samfélagsmál sig varða. Hún stóð framarlega í baráttunni gegn Víetnamstríðinu á sínum tíma og varð andstaða hennar við stríðið til þess að hún var sett á svartan lista innan kvikmyndageirans í Hollywood. Hún stóð einnig framarlega í baráttu gegn Íraksstríðinu og hefur víða vakið athygli fyrir baráttu sína gegn ofbeldi gagnvart konum og hefur skilgreint sig sem femínista. Árið 2005 stofnaði hún samtökin Women's Media Center ásamt þeim Robin Morgan og Gloriu Steinem en samtökunum er ætlað að stuðla að auknum sýnileika kvenna í fjölmiðlum og hefur Jane setið í stjórn samtakanna.

Fyrirmynd greinarinnar var „Jane Fonda“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 17. ágúst 2019