Jan Mayen-hryggurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jan Mayen svæðið milli Kolbeinseyjarhryggs, Ægishryggs og Jan Mayen þverbrotasvæðisins

Jan Mayen-hryggurinn er svæði í norðaustur Atlantshafi sem teygir sig frá Jan Mayen þverbrotabeltinu og allt að 500 km til suðurs. Þessi hryggur er ólíkur hafsbotninum í kring. Eyjan Jan Mayen situr á norðurenda hryggjarins sem er rúmlega 550 km norð-norðaustur af Íslandi. Jan Mayen-hryggurinn er margþætt hryggjakerfi sem teygir sig til suðurs og er talið að mestu gert úr meginlandsskorpu. Hryggurinn skiptist í tvo meginhluta, meginhrygginn í norðri og suðurhryggina. Meginhlutinn er að mestu leyti samhangandi og tiltölulega flatur í toppinn og hærri en syðri hlutinn. Syðri hluti Jan Mayen-hryggjarins samanstendur af fleiri minni hryggjum sem verða ógleggri og hverfa undir set- og hraunlög nær Íslandi. Austanmegin við Jan-Mayen-hrygginn er Noregsdjúp sem er allt að 3500 m djúpt og vestanmegin er Íslandsgrunn sem er um 1500-2000 m djúpt. Næst hryggnum er djúp sem kallað er Jan Mayen-djúpið.

Talið er að Jan Mayen-hryggurinn sé meginlandsfleki sem klofnað hefur frá meginlandi Grænlands og færst með landreki frá Grænlandi og út á miðjan hafsbotn norðaustur Atlantshafsins. Hryggurinn er gerður úr léttara efni en úthafsbotninn og segulstefnur í hryggnum eru mjög óljósar en það er dæmigert fyrir meginlandsberg á meðan úthafsbotn sem myndast í bráðinni kviku fær segulstefnu þess tíma sem hann myndast á.

Saga landreks á þessu svæði er þannig að í upphafi gliðnunar norðaustur Atlantshafs fyrir allt að 57 milljónum ára snemma á eósen þá rifnaði meginlandsskjöldurinn frá suðri til norðurs og kvika úr möttlinum þrengdi sér upp í sprungur og misgengi og basaltsskorpa sem kölluð er úthafsskorpa myndaðist og er ás þess svæðis sem mest eldvirkni var kölluð rekhryggur.

Svonefnt Jan Mayen Microcontinent (JMM) nær yfir stærra svæði en Jan Mayen-hryggurinn og er ekki ljóst hvort það svæði nær undir eyjuna Jan Mayen eða hvort norðurmörk þess séu skammt í suður frá eyjunni. Suðurmörk þess svæðis ná suðuryfir inn á Íslandsgrunn og hugsanlega alveg undir norðaustur hluta Íslands.

Talið er hugsanlegt að olíu- og gaslindir séu á Jan Mayen-hryggnum á svæði sem nefnt er Drekasvæðið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Bjarni Richter og Steinar þór Guðlaugsson, Yfirlit um jarðfræði Jan Mayen-svæðisins og hugsanlegar kolefnislindir, Ísor skýrsla unnin fyrir Iðnaðarráðuneytið í janúar 2007 Geymt 10 mars 2016 í Wayback Machine
  • „Er einhver möguleiki á að olía finnist innan efnahagslögsögu Íslands?“. Vísindavefurinn.
  • Jan Mayen (Norska olíustofnunin) Geymt 30 október 2018 í Wayback Machine
  • Submarine fieldwork on the Jan Mayen Ridge, 2012 Geymt 5 mars 2016 í Wayback Machine
  • Örnefni á landgrunninu og utan þess 1 Ægisdjúp[óvirkur tengill]
  • Drekasvæðið og opnunarsaga Norður-Atlantshafsins