Fara í innihald

Júlía Navalnaja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Júlía Navalnaja
Юлия Навальная
Navalnaja árið 2024.
Fædd
Júlía Borísovna Abrosímova
Юлия Борисовна Абросимова

24. júlí 1976 (1976-07-24) (48 ára)
ÞjóðerniRússnesk
StörfHagfræðingur
Þekkt fyrirAndstöðu gegn stjórn Vladímírs Pútín
FlokkurJabloko (2000–2011)
MakiAleksej Navalnyj (g. 2000; d. 2024)​
Börn2

Júlía Borísovna Navalnaja (f. Abrosímova 24. júlí 1976) er rússnesk stjórnmálakona og hagfræðingur. Hún er einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta. Navalnaja er ekkja Aleksej Navalnyj, sem var um árabil einn helsti stjórnarandstöðuleiðtogi í Rússlandi, en lést í fangelsi árið 2024. Eftir dauða eiginmanns síns hét Navalnaja því að halda áfram starfi hans og beita sér gegn stjórn Pútíns.

Júlía Navalnaja er menntuð í hagfræði og vann í banka snemma á starfsferli sínum. Hún kynntist eiginmanni sínum, Aleksej Navalnyj, þegar bæði voru í fríi í Tyrklandi árið 1998 og giftist honum árið 2000.[1] Þau eignuðust tvö börn, Daríu og Zakhtar.[2]

Júlía Navalnaja studdi eiginmann sinn er hann varð áberandi andlit rússnesku stjórnarandstöðunnar á næstu tveimur áratugum en var sjálf lítið í sviðsljósinu. Á þessum tíma var Aleksej fyrst fangelsaður árið 2013 og var síðan eitrað fyrir honum með taugaeitrinu Novítsjok árið 2020. Navalnaja komst í kastljós fjölmiðla þegar eiginmaður hennar var í dái vegna eitrunarinnar og barðist fyrir því að honum yrði komið undir læknishendur erlendis, þrátt fyrir að vera sjálf veik af eitruninni.[1]

Eftir eitrunina var Aleksej Navalnyj fluttur á sjúkrahús í Þýskalandi en hann sneri aftur til Rússlands eftir að hafa náð bata næsta ár og var strax handtekinn. Júlía Navalnaja segist hafa reynt að skrifa honum bréf á hverjum degi eftir handtöku hans.[2] Aleksej lést í fangavistinni í febrúar 2024 og Júlía, líkt og margir stuðningsmenn hans, kenndu stjórn Vladímírs Pútín um andlátið. Fáeinum dagum eftir andlátið sakaði Navalnaja Pútín um að hafa myrt eiginmann sinn.[3][4]

Eftir dauða Aleksej hét Navalnaja því að halda áfram starfi hans og berjast fyrir „frjálsu Rússlandi“.[5] Í ræðu sem Navalnaja flutti á öryggisráðstefnu í München stuttu eftir andlát eiginmanns hennar sagðist hún vonast til þess að Pútín og fylgismenn hans fengju að svara fyrir örlög Aleksej í nánustu framtíð.[6] Hún hefur ítrekað sagst vonast til þess að Pútín verði handtekinn fyrir glæpi sína.[7]

Í aðdraganda forsetakosninga Rússlands í mars árið 2024 hvatti Navalnaja Rússa til að mótmæla Pútín og sýna andstöðu gegn honum.[8] Meðal annars hvatti hún fólk til að mynda langar raðir við kjörstaði, kjósa aðra frambjóðendur en Pútín eða eyðileggja kjörseðla með því að skrifa nafn Navalnyj á þá í stórum stöfum.[9]

Í júlí 2024 gaf rússneskur dómstóll út handtökuskipun gegn Júlíu Navalnaja á þeim grundvelli að hún væri meðlimur í „öfgasamtökum“. Navalnaja er ekki búsett í Rússlandi og kemur því til með að verða handtekin ef hún snýr þangað aftur.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Sunna Ósk Logadóttir (10. mars 2024). „Eitursnjall óvinur Pútíns“. Heimildin. Sótt 25. desember 2024.
  2. 2,0 2,1 „Júlía Navalnaja: Pútín mun bera ábyrgð“. mbl.is. 18. febrúar 2024. Sótt 25. desember 2024.
  3. Hallgrímur Indriðason (19. febrúar 2024). „Ekkja Navalnys: „Vladimír Pútín drap eiginmann minn". RÚV. Sótt 25. desember 2024.
  4. Hallgrímur Indriðason (28. febrúar 2024). „Navalnaja: „Pútín er bölvaður glæpamaður". RÚV. Sótt 25. desember 2024.
  5. Hólmfríður Gísladóttir (19. febrúar 2024). „Heitir því að halda á­fram að berjast fyrir frjálsu Rúss­landi“. Vísir. Sótt 25. desember 2024.
  6. Ragna Gestsdóttir (16. febrúar 2024). „Ekkja Navalny – „Pútín, þú munt svara fyrir það sem þú gerðir við manninn minn". DV. Sótt 25. desember 2024.
  7. Markús Þ. Þórhallsson (20. október 2024). „Ekkja andófsmanns vill sjá Pútín breytast úr Tsar í tukthúslim“. RÚV. Sótt 25. desember 2024.
  8. Oddur Þórðarson (6. mars 2024). „Navalnaja hvetur Rússa til að mótmæla Pútín á kjördag“. RÚV. Sótt 25. desember 2024.
  9. „Ekkja Navalnís efnir til mótmæla“. mbl.is. 6. mars 2024. Sótt 25. desember 2024.
  10. „Rússar vilja handtaka ekkju Navalnís“. mbl.is. 10. júlí 2024. Sótt 25. desember 2024.