Jón Borgfirðingur
Jón Borgfirðingur (Jón Jónsson, 30. september 1826 – 20. október 1912) var íslenskur fræðimaður, rithöfundur og lögregluþjónn. Hann safnaði handritum og hélt dagbók.
Vinnumaður og bókbindari
[breyta | breyta frumkóða]Jón var fæddur á Hvanneyri í Andakíl, sonur Guðríðar Jónsdóttur, ógiftrar vinnukonu þar, en uppfóstraður af fátækum hjónum í Svíra, koti hjá Hvanneyri. Vegna fátæktar höfðu þau engin tök á að senda hann í skóla en hann lærði þó að lesa og skrifa. Eftir að hann komst upp var hann vinnumaður á Hvanneyri og víðar í Borgarfirði en var mjög bókhneigður, las allt sem hann náði í og lærði dönsku án tilsagnar. Hann var líka áhugasamur um stjórnmál og fékk leyfi þáverandi húsbónda síns til að sækja Þingvallafundinn 1848.
Hann var þó aldrei hneigður fyrir sveitavinnu og flutti til Reykjavíkur haustið 1852 og stundaði þar ýmsa vinnu, einkum þó farandbóksölu. Hann fluttist svo til Akureyrar 1854 og lærði þar bókband. Hann kvæntist Önnu Guðrúnu Eiríksdóttur 1856 og lifði næstu árin á bókbandsiðn, bókaútgáfu og bóksölu á Akureyri, auk þess sem hann fór í bóksöluferðir.
Lögregluþjónn og bókamaður
[breyta | breyta frumkóða]Jón flutti aftur til Reykjavíkur með fjölskyldu sína 1865 og fékk fljótlega stöðu lögregluþjóns, sem hann gegndi svo í 23 ár. Jafnframt fór hann að sinna ritstörfum og var meðal annars fenginn til þess af bókaverði British Museum að skrifa lista yfir allar bækur sem prentaðar höfðu verið í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi og í framhaldi af því sneru aðrir erlendir fræðimenn og bókaverðir sér til hans og báðu hann um lista yfir íslensk bókverk. Einnig var hann um tíma umboðsmaður British Museum og útvegaði safninu ýmsar íslenskar bækur. Hann var ástríðufullur bóka- og handritasafnari en gat þó oft ekki sökum fátæktar keypt það sem hugurinn stóð til. Hann lét Bókmenntafélagið fá allt það sem hann eignaðist af handritum, sumt af því mjög merka gripi, enda var hann gerður að heiðursfélaga þess.
Fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Í bréfum Jóns Borgfirðings má sjá þess glögg merki að honum svíður menntunarskortur sinn; hann kallar sig á einum stað „minnstan allra utanveltubesefa Minervumusteris“ og á öðrum stað segir hann „Mér hefði verið miklu nær að rorra í Borgarfjarðarmyrkrinu sem garðmaður og fjósa, aldrei lært að lesa á bók og því síður að mynda staf með krít og koli“. En þrátt fyrir fátækt og menntunarleysi tókst þeim hjónum að koma öllum fjórum sonum sínum til mennta og eldri synirnir tveir urðu landskunnir fræðimenn. Elstur var Finnur Jónsson prófessor, þá Klemens Jónsson landritari og ráðherra, Vilhjálmur cand. phil., sem dó ungur, og Ingólfur stúdent og verslunarmaður. Systurnar fengu einnig menntun að þeirrar tíðar hætti; Guðný giftist Birni Bjarnarsyni sýslumanni í Dalasýslu en Guðrún giftist ekki en var lengst af með Klemens bróður sínum. Hjá honum var Jón Borgfirðingur líka eftir að Anna kona hans lést 10. apríl 1881.