Jóhannes 1. Eþíópíukeisari
Jóhannes 1. (ge'ez: ዮሐንስ yōḥānnis, amharíska: yōhānnis; ríkisnafn: አእላፍ ሰገድ A'ilāf Sagad, „sá sem tugþúsundir hneigja sig fyrir“; um 1640 – 19. júlí 1682) var Eþíópíukeisari (nəgusä nägäst eða „konungur konunganna“) frá 1667 til dauðadags. Hann var fjórði sonur Fasilídesar af Salómonsætt.
Minnugur yfirgangs jesúíta neyddi hann alla Evrópubúa í landinu til að ganga í eþíópísku kirkjuna eða fara ella í útlegð til Sennar í Súdan. Hann lét hengja sex fransiskana sem Alexander 7. páfi sendi til að reyna að snúa Eþíópíu til kaþólskrar kristni.
Á hans tíma risu deilur innan kirkjunnar um eðli Krists, hvort hann hefði orðið eins efnis (ὁμοιούσιος) við guð við smurninguna, eða hvort hann væri sömu náttúru (μία φύσις) og guð. Fyrri skoðuninni var haldið fram af fylgjendum Ewostatewosar i Gojjam og þeirri síðari af munkum í klaustrinu Debre Libanos. Málið var síðar leyst á kirkjuþingi í valdatíð sonar Jóhannesar, Jósúa 1..
Fyrirrennari: Fasilídes |
|
Eftirmaður: Jósúa 1. |