Fasilídes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Höll Fasilídesar í Gondar.

Fasilídes (ge'ez ፋሲልደስ Fāsīladas, nútímamál Fāsīledes; ríkisnafn ʿAlam Sagad, ge'ez ዓለም ሰገድ ʿĀlam Sagad, nútímamál ʿĀlem Seged, „sá sem heimurinn hneigir sig fyrir“; 1603 - 18. október, 1667) var Eþíópíukeisari frá 1632. Hann var af Salómonsætt, sonur Susenyosar keisara og Sultana Mogassa drottningar.

Fasilídes var hylltur sem keisari þegar árið 1630 af uppreisnarmönnum undir stjórn Sersa Krestos, en hann náði ekki völdum fyrr en faðir hans sagði af sér tveimur árum síðar. Hann dró enn frekar úr áhrifum Jesúíta í landinu, gerði eignir þeirra upptækar og hrakti þá að lokum burt úr landinu, eftir að hann frétti af árás Portúgala á Mombasa í Kenýa. 1665 lét hann brenna þær kaþólsku bækur sem eftir voru í landinu.

Fasilídes stofnaði borgina Gondar árið 1636 og gerði hana að höfuðborg. Mest af valdatíma hans fór í að berja niður uppreisnir meðal Ageva eða hrinda árásum Orómóa í suðri.


Fyrirrennari:
Susenyos
Eþíópíukeisari
(1632 – 1667)
Eftirmaður:
Jóhannes 1.