Fara í innihald

Ion Antonescu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ion Antonescu
Forsætisráðherra Rúmeníu
Í embætti
5. september 1940 – 23. ágúst 1944
ÞjóðhöfðingiKarol 2.
Mikael
ForveriIon Gigurtu
EftirmaðurConstantin Sănătescu
Conducător Rúmeníu
Í embætti
6. september 1940 – 23. ágúst 1944
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurEmbætti lagt niður
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. júní 1882
Pitești, Argeș-sýslu, Rúmeníu
Látinn1. júní 1946 (63 ára) Jilava, Ilfov-sýslu, Rúmeníu
DánarorsökTekinn af lífi
MakiMaria Antonescu ​(g. 1927⁠–⁠1946)
StarfHermaður, stjórnmálamaður

Ion Antonescu (15. júní 1882 – 1. júní 1946) var rúmenskur herforingi og stjórnmálamaður sem var einræðisherra Rúmeníu sem forsætisráðherra og Conducător landsins í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir stríðið var hann sakfelldur fyrir stríðsglæpi og tekinn af lífi.

Antonescu var atvinnuhermaður og hafði komist til metorða í rúmensku bændauppreisninni árið 1907 og í fyrri heimsstyrjöldinni. Antonescu hataðist við gyðinga og studdi fasíska stjórnmálaflokka eins og Kristilega þjóðarflokkinn og Járnvörðinn á millistríðsárunum. Hann var sendur sem herfulltrúi til Frakklands og varð síðar starfsmannastjóri og varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Octavians Goga.

Seint á fjórða áratugnum lenti Antonescu í deilum við konung Rúmeníu, Karol 2., og var handtekinn. Honum tókst þó að rísa til pólitískra áhrifa í stjórnmálakreppu ársins 1940 og stofnaði alræðisríki í bandalagi við foringja Járnvarðarins, Horia Sima. Antonescu gekk í bandalag við Öxulveldin og öðlaðist traust Adolfs Hitler. Síðan losaði hann sig við Járnverðina í misheppnaðri uppreisn þeirra árið 1941. Auk þess að vera forsætisráðherra gegndi Antonescu embættum utanríkis- og varnarmálaráðherra. Stuttu eftir að Rúmenar gengu til liðs við Öxulveldin í innrásinni í Sovétríkin og endurheimtu þannig Bessarabíu og Norður-Búkóvínu varð Antonescu einnig marskálkur Rúmeníu.

Antonescu er óvenjulegur meðal fremjenda Helfararinnar því ríkisstjórn hans tók sjálf af lífi um 400.000 manns óháð nasistum, aðallega bessarabíska, úkraínska og rúmenska Gyðinga og Rómafólk. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í Helförinni einkenndust af bæði fjöldamorðum og nauðungarflutningum. Ríkisstjórnin lagði þó meiri áherslu á eignarhald en manndráp, sýndi flestum gyðingum í gamla rúmenska konungdæminu linkind og neitaði að lokum að framkvæma lokalausnina líkt og var gert í öðrum löndum á valdi Öxulveldanna.

Bandamenn hófu loftárásir á Rúmeníu árið 1944 og dauðsfall var mikið meðal rúmenskra hermanna á austurvígstöðvunum. Antonescu reyndi því að semja um frið við bandamenn en án árangurs. Þann 23. ágúst 1944 framdi Mikael Rúmeníukonungur valdarán gegn Antonescu og handtók hann.[1] Antonescu var framseldur til Sovétríkjanna en síðan sendur heim til Rúmeníu, þar sem réttað var yfir honum og hann dæmdur til dauða. Hann var tekinn af lífi í júní árið 1946. Jafnframt voru margir samstarfsmenn Antonescu sakfelldir og teknir af lífi, þar á meðal eiginkona hans, Maria. Réttarhöldin voru harðlega gagnrýnd fyrir að leggja of mikla áherslu á hugmyndafræði rúmenska kommúnistaflokksins sem þá var tekinn við völdum. Rúmenskir þjóðernissinnar reyndu því síðar að hvítþvo Antonescu og halda honum á lofti sem þjóðhetju.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Þegar Antonescu var steypt af stóli“. Morgunblaðið. 17. janúar 1945. bls. 7.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Ion Gigurtu
Forsætisráðherra Rúmeníu
(5. september 194023. ágúst 1944)
Eftirmaður:
Constantin Sănătescu